Eftir fjórar umferðir eru þeir Guðmundur Kjartansson og Hjörvar Steinn Grétarsson enn með fullt hús. Hjörvar vann Baldur Kristinsson og Guðmundur vann Stefán Bergsson. Bragi Þorfinsson vann Vigni Vatnar en æskan átti þó góðan sigur í umferðinni því Alexander Oliver Mai lagði Daða Ómarsson. Alexander er með tvo vinninga af fjórum þrátt fyrir að vera langstigalægstur í flokknum, en hann er í mikilli framför. Í fimmtu umferð fer fram mikilvægasta skák A-flokksins, allavega miðað við framgang mótsins hingað til, en þá stýrir Hjörvar hvítu mönnunum gegn Gumma. Úrslit
Nú eru það Guðni Stefán Pétursson og Aron Þór Mai sem eru efstir í B-flokknum, með þrjá vinninga. Aron vann Harald Haraldsson með svörtu en Guðni gerði jafntefli við Símon Þórhallsson. Mikael Jóhann náði sér á strik og vann nafna sinn Sævar Jóhann. Lenka fékk vinning í ótefldri skák gegn Gauta Páli Jónssyni sem var vant við látinn. Í næstu umferð eru það Gauti og Lenka sem fá að spreyta sig gegn þeim sem tróna á toppnum í flokknum, Gauti fær svart gegn Aroni og Lenka fær hvítt gegn Guðna. Úrslit
Aasef Alashatar hefur komið sér vel fyrir í efsta sæti í C-flokknum með 3.5 vinning en þrír skákmenn hafa 2.5 vinning. Aasef vann Pétur Pálma í toppslag, Benedikt Briem vann Jóhann Arnar og Jóhann Ragnarsson vann Gunnar Erik. Skák Arnars Heiðarssonar og Helga Péturs lauk með jafntefli. Þess má geta að í næstu umferð teflir Aasef gegn hinum efnilega Benedikt Briem. Vinni Benedikt þá skák verður staðan gríðarlega jöfn og spennandi á toppnum, en Benedikt er einn af þeim sem hafa 2.5 vinning. Úrslit
Flest úrslit opna flokksins voru eftir bókinni góðu, en á fjórða borði vann Sigurður J. Sigurðsson (1484) Benedikt Þórisson (1573) og á öðru borði vann Ingvar Wu Skarphéðinsson (1332) Halldór Kristjánsson (1558). Eftirtektarverður árangur hjá Ingvari. Arnar Ingi náði ekki að halda toppsætinu og varð að sætta sig við jafntefli gegn Þorsteini Magnússyni í skák þeirra á fyrsta borði. Niðurstaðan er sú að þeir Arnar og Ingvar eru efstir með 3.5 vinnig og mætast í næstu umferð. Fjórir skákmenn koma í humátt á eftir þeim svo allt getur gerst! Úrslit
Annað kvöld heldur fjörið áfram. Umferðin hefst klukkan 19:30 og teflt er í félagsheimili TR að Faxafeni 12. Í flestum flokkunum fara fram mjög mikilvægar skákir svo búast má við mergð áhorfenda. Þessi verðandi sægur skákáhugamanna má ekki láta kaffið og kruðeríið hjá Birnu fram hjá sér fara!