Góð ferð Benedikts til Svíaríkis á Rilton Cup



Um áramótin fór ég á skemmtilegt skákmót sem nefnist Rilton Cup og fer fram árlega í Stokkhólmi. Þetta var mjög skemmtilegt mót og svo er Stokkhólmur falleg borg þar sem margt er hægt að skoða og nýttum við pabbi okkur það en ég leyfði honum að koma með mér í ferðina.

Ég tefldi í flokki skákmanna með minna en 1800 Elo-stig en síðan voru líka undir og yfir 2200 flokkar. Alls tóku næstum því 400 keppendur þátt í öllu mótinu en í mínum flokki voru þeir 86. Ég var fimmti stigalægsti skákmaðurinn (og svo voru nokkrir stigalausir) en ég hækkaði samt um meira en 90 Elo-stig og fékk 3 vinninga. Það voru tefldar sjö umferðir og tvisvar voru tvær umferðir sama daginn sem mér finnst bara fínt. Ég var líka vanur tímamörkunum sem voru 90+30. Ég byrjaði mjög vel og náði þannig að halda mig frá stigalægstu andstæðingunum en allir sem ég tefldi við voru miklu stigahærri en ég, minnst 300 stigum og mest 600 stigum.

20180102_094340

(Dómararnir voru mjög strangir varðandi allan rafeindabúnað svo það var ekki séns að taka mynd eftir að umferðir voru byrjaðar!)

Ég ætla aðeins að fara yfir umferðirnar en ég mæli með þessu móti fyrir alla, sérstaklega krakka sem langar að prófa að tefla við nýja andstæðinga og bæta sig ennþá meira. Þetta er líka stutt ferðalag og það kostar ekki mikið að fljúga til Svíþjóðar. Svo er líka gott að á þessum tíma þarf ekki að taka mikið frí úr skóla (auðvitað er samt alltaf gaman að fá frí!).

1. umferð: Hvítt gegn Svía með 1562 Elo-stig – Jafntefli

Eins og alltaf í fyrstu umferð er erfitt að vita hvern maður fær en ég og pabbi vorum búnir að reikna út að þessi miðaldra Svíi væri líklegur. Það stóðst og ég fann nokkrar skákir með honum og sá að hann var e5 gaur. Ég ákvað því að henda á hann skoska gambítnum sem ég hef soldið notað.

Svíinn lék snemma h6 og var mjög passívur. Ég fékk miklu betri stöðu og eftir 28 leiki var ég eiginlega bara með unnið

1a

Eftir að ég lék Rxd6 lítur svarta staðan alls ekki vel út. Ég tefldi samt ekki nógu vel í framhaldinu og lék af mér manni en var með bætur fyrir hann og á endanum sömdum við jafntefli.

2. umferð: Svart gegn Svía með 1645 Elo-stig – Jafntefli

Annar miðaldra heimamaður var andstæðingurinn í annari umferð. Ég fann engar skákir með honum þannig að ég rifjaði bara upp mínar helstu byrjanir. Skákin byrjaði á d4, d5 og síðan Bf4 en mér finnst þessi biskupsleikur frekar algengur í dag hjá hvítum. Líklega er það útaf London-system sem er vinsælt en hann stillti því einmitt upp gegn mér. Ég stillti bara upp í rólegheitum og eftir 18 leiki var staðan hnífjöfn

2a

Hér lék ég Hc7 en kannski er t.d. Dh6 betri áætlun. Ég lenti síðan í pínu vandræðum sem ég náði að bjarga mér úr og við sömdum jafntefli eftir 43 leiki eftir að hann leyfði mér að þráskáka.

3. umferð: Hvítt gegn Svía með 1494 Elo-stig – Sigur

Enn einn heimamaðurinn en þessi var miklu yngri, fæddur árið 2000. Aftur átti ég erfitt með að finna skákir með andstæðingnum þannig að ég tefldi bara eitthvað í tölvunni og leysti taktík og svona. Aftur fékk ég á mig e5 og aftur beitti ég skoska gambítnum en mér finnast taktískar stöður skemmtilegar. Hann stillti pínu óvenjulega upp og lék m.a. g6 snemma sem ég hef ekki fengið á mig. Staðan var jöfn en í 15. leik lék hann af sér og gaf mér færi á að ná góðri sókn

3a

Hann var að leika Ra5 sem er ekki góður leikur. Ég lék Bg5 og síðan Rf6+. Hann tók riddarann með biskupnum og ég til baka með mínum biskup og þess vegna eru svörtu reitirnir í kringum kónginn orðnir mjög veikir. Hér er ég með unnið en hann gerði mér mjög auðvelt fyrir og leyfði mér að planta drottningunni á h6. Þá var hann óverjandi mát og gafst upp eftir bara 19 leiki.

4. umferð: Svart gegn Svía með 1720 Elo-stig – Tap

Ég var sem sagt með 2 vinninga eftir 3 umferðir og hafði enn ekki tapað skák. Ég var ánægður með svona góða byrjun og vissi að mótið gæti bara verið gott úr þessu. Aftur fékk ég Svía og var þessi einu ári yngri en pabbi sem skildi mig ekki þegar ég sagði að ég tefldi bara við einhverja gamla karla. Ég fann nokkrar skákir með honum og vissi því að hann tefldi d4. Við tefldum drottningarpeðsbyrjun og ég var ekki í neinum vandræðum í byrjuninni en í 16. leik lék ég af mér þegar ég gerðist of bráður á miðborðinu. Ég lék d-peðinu frá d5 til d4 til að opna línur en gaf honum þá færi á fléttum á kóngsvæng. Ég tapaði í 20 leikjum en lærði mikið af skákinni, aðallega að halda áfram að laga hjá mér tímasetninguna á sóknaraðgerðum, en ég er stundum soldið óþolinmóður og vil bara komast sem fyrst í sóknina.

5. umferð: Hvítt gegn sænska jólasveininum með 1449 Elo-stig – Tap

Okkur fannst mjög fyndið að ég skildi tefla við jólasveininn. Þið getið séð mynd af honum hérna https://chess-db.com/public/pinfo.jsp?id=1709330. Reyndar kom svo í ljós að hann var búinn að raka af sér skeggið enda jólin alveg að verða búin. Enn á ný var það skoski gambíturinn og aftur lék svartur h6 snemma. Aftur tókst mér að fá unna stöðu út úr byrjuninni og í 21. leik átti ég algjöra bombu

5a

Hér er f5 svakalega sterkur leikur. Ég lék í staðinn e6 sem er líka góður leikur en ekki eins sterkur og f5 sem opnar allar leiðir að svarta kónginum. Skömmu seinna missti ég svo aftur af leið sem hefði gefið mér gjörunna stöðu

5b

Ég skil ekki ennþá hvernig ég missti af Hg6 en kannski sá ég líka ekki alveg framhaldið nógu marga leiki á eftir. Í staðinn fór ég með hrókinn til baka á e5 en var samt með mun betra alla skákina, alveg þangað til síðustu leikina þegar ég lék henni klaufalega niður. Svekkjandi tap en lærdómsríkt.

6. umferð: Svart gegn Svía með 1522 Elo-stig – Sigur

Þarna var ég búinn að tapa tveimur í röð en ég var alveg rólegur því ég vissi að ég hafði teflt skákirnar vel þrátt fyrir það. Það þýddi ekkert annað en að mæta ákveðinn til leiks gegn þessum Svía sem var meira en 80 ára gamall en það finnst mér frekar rosalegt. Ég vann hann í 30 leikjum en hann tefldi e4 sem ég mætti með Sikileyjarvörn. Hann tefldi Alapin (c3) afbrigðið gegn henni sem ég hef skoðað soldið og ég átti ekki í neinum vandræðum í byrjuninni. Hann lék svo af sér peði þannig að ég fékk mun betra en lokin á skákinni voru frekar furðuleg

6aHér var hvítur að leika Bd3 og þá á svartur hinn lævísa Rc5 sem vinnur allavega skiptamun. Í staðinn lék ég Ha1+ sem gefur hvítum betri stöðu því þá getur hann skákað á b8 með hróknum. Þá lék sá gamli hinsvegar Kg2 (í staðinn fyrir Kh2) sem er hrikalegur afleikur því þá skáka ég biskupinn á d3 af með Re1+. Hann gafst strax upp og mikilvægur sigur hjá mér í höfn eftir tvær tapskákir í röð.

7. umferð: Hvítt gegn Svía með 1492 Elo-stig – Tap

Enn á ný mætti ég heimamanni “á miðjum aldri” eins og pabbi segir. Ég gat lítið undirbúið mig því ég fann engar skákir með honum. Upp kom Sikileyjarvörn og stillti ég upp ensku árásinni sem ég hef verið að skoða og fengið góða leiðsögn í. Strax í 10. leik fannst mér hann leika furðulega þegar hann fórnað skyndilega biskup á g4 peðið mitt. Ég hef aldrei séð þetta og þetta er alls ekki gott fyrir svartan

7a

Hér er ég einfaldlega manni yfir og eiginlega með unna stöðu. Því miður langhrókaði ég eftir uppskiptin á g4 í staðinn fyrir að leika bara Hg1 sem ég reyndar skoðaði en ég var eitthvað smeykur við Bh4+. Eftir að ég tók svo riddarann til baka með drottningu á e3 varð hún leppur eftir Bg5. Mér fannst þetta rosa klaufalegt og ég var svekktur eftir skákina sem ég tefldi í smá tíma í viðbót. Þetta voru stærstu mistökin hjá mér í öllu mótinu en ég get samt verið ánægður því ég held að ég hafi bara staðið mig mjög vel og þetta var skemmtileg ferð. Ég tefldi heilt yfir vel og bætti heilmikilli reynslu við hjá mér.

20180105_150535

(Hér er ég að skoða frægt skip sem heitir Vasa-skipið. Það sökk bara strax í höfninni fyrir 350 árum af því að það var kolvitlaust byggt!)