Gagnaveitumótið: Jón Viktor og Einar Hjalti leiða



Það var hart barist þegar fjórða umferð Gagnaveitumótsins – Haustmóts Taflfélags Reykjavíkur fór fram síðastliðinn sunnudag.  Í A-flokki náði reynsluboltinn Gylfi Þór Þórhallsson góðu jafntefli við stórmeistarann Stefán Kristjánsson en á sama tíma vann Fide meistarinn Einar Hjalti Jensson öruggan sigur á Degi Ragnarssyni og sömuleiðis sigraði alþjóðlegi meistarinn Jón Viktor Gunnarsson Oliver Aron Jóhannesson.  Stefán Bergsson lagði Kjartan Maack og Sverrir Örn Björnsson hafði betur gegn Jóhanni H. Ragnarssyni í mikilli baráttuskák.

 

Jón Viktor og Einar Hjalti eru efstir með fullt hús vinninga en Stefán K kemur í humátt á eftir með 3,5 vinning.  Stefán B hefur 2,5 vinning og Dagur 1,5 vinning.  Í fimmtu umferð verður stærsta viðureignin án efa milli Stefáns K og Einars Hjalta en einnig mætast Jón Viktor og Kjartan, Dagur og Jóhann, Stefán B og Gylfi sem og Sverrir Örn og Oliver.

 

Í B-flokki halda Ingi Tandri Traustason, Jón Trausti Harðarson og Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir efsta sætinu með 3,5 vinning hver.  Ingi Tandri nýtti sér vel rangar ákvarðanir Þóris Benediktssonar og sigraði örugglega og þá lagði Jón Trausti landsliðskonuna Tinnu Kristínu Finnbogadóttir eftir fullkröftugar fórnir þeirrar síðarnefndu sem vakti athygli fyrir mikla þrautseygju í lokin þrátt fyrir að vera gífurlegum liðsmun undir.  Þá vann Hallgerðu stöllu sína, Jóhönnu Björgu Jóhannsdóttur.  Þórir fylgir forystusauðunum með 2,5 vinning.

 

Staðan í C-flokki er enn hnífjöfn þar sem Kristófer Ómarsson og Elsa María Kristínardóttir leiða með 3 vinninga hvor.  Elsa sigraði Hrund Hauksdóttur og Kristófer gerði jafntefli við Magnús Kristinsson.  Sigurlaug R. Friðþjófsdóttir og Valgarð Ingibergsson hafa 2,5 vinning en þrír keppendur koma næstir með 2 vinninga.

 

Spennan er ekki minni í opna flokknum þar sem hinn ungi og efnilegi Hilmir Hrafnsson hefur tyllt sér á toppinn með 3,5 vinning en hann sigraði Björn Hólm Birkisson.  Hjálmar Sigurvaldason, Sóley Lind Pálsdóttir og Haukur Halldórsson koma næst með 3 vinninga en sex keppendur hafa 2,5 vinning.

 

Fimmta umferð fer fram næstkomandi sunnudag og hefst kl. 14.  Áhorfendur eru velkomnir og að vanda mun vöffluilminn leggja frá hinu margrómaða Birnu-Kaffi.

  • Úrslit, staða og pörun
  • Skákir: 1   2   3
  • Myndir