Hjörvar efstur á Skeljungsmótinu



Hjörvar Steinn Grétarsson (2279) er efstur með 6,5 vinning eftir sigur á Hrannari Baldurssyni (2080) í  sjöundu umferð Skeljungsmótsins.  Jöfn í 2.-5. sæti með 5,5 vinning eru Hrannar, Halldór B. Halldórsson (2201), Þorvarður Ólafsson (2182) og Lenka Ptacnikova (2249).

Enn ber nokkuð á því að hinir stigalægri hafi í fullu tré við þá stigahærri og má þar nefna jafntefli Atla Freys Kristjánssonar (2105) og Ingvars Þórs Jóhannessonar (2345) en um tíma leit út fyrir að Ingvar væri að innbyrða sigur í endataflinu þegar samstæð frípeð hans á a- og b-línum litu ógnvekjandi út.  Atli varðist þó vel og skákinni lauk að lokum með skiptum hlut.

Þá sigraði Halldór Sigurbjörn Björnsson (2324) og Guðlaug Þorsteinsdóttir (2134) og Patrekur Maron Magnússon (1902) gerðu jafntefli þar sem Guðlaug komst lítt áffram í lokin peði yfir en riddari Patreks varðist vel gegn biskupi Guðlaugar.  Einnig vakti athygli sigur Sigríðar Bjargar Helgadóttur (1646) á Ólafi Gísla Jónssyni (1913) þar sem sá síðarnefndi lék niður mun betri stöðu.

Fjórum skákum var frestað til morguns og verður pörun birt að þeim loknum.  Þær skákir ættu þó ekki að hafa áhrif á röðun efstu manna og því nokkuð auðvelt að finna út hverjir tefla á efstu borðum í áttundu og næstsíðustu umferð sem fer fram næstkomandi miðvikudag kl. 19.00.

Nánari upplýsingar má nálgast á heimasíðu mótsins.