19 TR-ingar meðal þátttakenda á Reykjavík Open



Það hefur varla farið framhjá nokkrum skákáhugamanni að þessa dagana fer fram í Hörpu 28. Opna Reykjavíkurskákmótið.  Þátttaka hefur aldrei verið meiri og að venju láta liðsmenn Taflfélags Reykjavíkur sig ekki vanta en það fer nærri að tíundi hver keppandi sé TR-ingur.  Alls eru þátttakendur rúmlega 220 og á meðal þeirra spreyta sig 19 skákmenn úr TR í glæsilegu móti þar sem styrkleiki og aldur keppenda ná yfir allan skalann en yngsti keppandinn er aðeins sjö ára.

 

Af þeim 19 TR-ingum sem taka þátt eru fjórir erlendir skákmeistarar; hollensku og úkraínsku stórmeistararnir Erwin L‘ami og Mikhailo Oleksienko, danski alþjóðlegi meistarinn Simon Bekker-Jensen og rúmenska skákkonan Alina L‘ami sem er stórmeistari kvenna.  Sérstaklega ánægjulegt er að fyrsti stórmeistari Íslendinga og TR-ingur frá upphafi, Friðrik Ólafsson, er á meðal keppenda en þátttaka hans hefur vakið heimsathygli.  Þá er alþjóðlegi meistarinn Guðmundur Kjartansson sömuleiðis með en hann hefur verið mjög virkur að undanförnu.  Þá er vert að nefna okkar efnilegasta skákmann og nýkrýndan Norðurlandameistara og Íslandsmeistara barna Vigni Vatnar Stefánsson en hér á eftir fer listi yfir þá TR-ingana sem taka þátt að þessu sinni.  Listinn er birtur í stigaröð:

 

  • GM Erwin L‘ami 2622
  • GM Mikhailo Oleksienko 2568
  • IM Guðmundur Kjartansson 2430
  • GM Friðrik Ólafsson 2416
  • IM Simon Bekker-Jensen 2405
  • WGM Alin L‘ami 2362
  • Daði Ómarsson 2212
  • Kjartan Maack 2136
  • Halldór Pálsson 2078
  • Jon Olav Fivelstad 1888
  • Þorsteinn Leifsson 1759
  • Vignir Vatnar Stefánsson 1652
  • Veronika Steinunn Magnúsdóttir 1557
  • Gauti Páll Jónsson 1519
  • Jakob Alexander Petersen 1370
  • Donika Kolica 1251
  • Björgvin Kristbergsson 1197
  • Guðmundur Agnar Bragason 1092
  • Pétur Jóhannesson 1000

 

Það er gaman að geta þess að nú, þegar fjórum umferðum er lokið og mótið rétt hálfnað, er yngsta kynslóðin svo sannarlega að standa sig vel en Jakob Alexander er með 23 stiga hækkun sem stendur og Vignir Vatnar 13 stig.  Gauti Páll og Donika koma svo næst með 10 stig hvor.  Flesta vinninga eða 3 hafa Guðmundur, Erwin, Simon og Mikhailo.

 

Það er mikið eftir af mótinu og óskar TR liðsmönnum sínum góðs gengis í baráttunni.  Stefnt er að því að fylgjast hér með gangi mála hjá TR-ingunum á meðan að móti stendur.  Ítarlegan fréttaflutning er að finna á skak.is sem og allar frekari upplýsingar um gang mála.