Taflfélag Reykjavíkur vann allt á Íslandsmóti unglingasveita!



Um síðustu helgi fór fram Íslandsmót unglingasveita í Garðaskóla í Garðabæ. Taflfélag Reykjavíkur mætti þangað þungvopnað með níu sveitir sem er einni sveit fleira en í fyrra. Alls tóku nítjan sveitir þátt í mótinu og átti félagið því nær helming sveita á mótinu. Það ber breidd og öflugu barna og unglingastarfi félagsins fagurt vitni. Sérstaklega ánægjulegt var að nú tóku þrjár stúlknasveitir frá félaginu þátt sem er fjölgun um tvær frá því í fyrra. Stúlknaæfingar félagsins undir undir öruggri handleiðslu Sigurlaugar Friðþjófsdóttur hafa notið sífellt aukinni vinsælda, eru vel sóttar og afar mikilvægar til að auka þátt stúlkna í skák sem sárlega hefur vantað.

Isl_unglingasveita_2015-24

A sveit TR (til hægri) teflir við D sveit TR

Fyrirfram var búist við góðu gengi sveitanna enda félagið ríkjandi meistari og vann alla flokka sem keppt var í í fyrra. A sveit félagsins var líka óárennileg, enda skipuð fjórum af efnilegustu og reynslumestu unglingum landsins. Á fyrsta borði tefldi Vignir Vatnar Stefánsson sem þrátt fyrir ungan aldur er hokinn af reynslu. Hilmir Freyr Heimisson sem snéri aftur í TR eftir nokkurra ára fjarveru var á öðru borði og tvíburabræðurnir Bárður Örn og Björn Hólm Birkisson tefldu á þriðja og fjórða borði. Allir þessir strákar taka síðar í mánuðinum þátt í Heimsmeistaramóti barna og unglinga í Grikklandi en þangað fara fjölmargir krakkar frá félaginu.

Asveit

Ekki hægt að gera betur!

Það kom líka á daginn að ekkert gat stöðvað sigurgöngu sveitarinnar og skemmst frá því að segja að hún vann allar viðureignir sínar 4-0 og kom í mark langefst með fullt hús vinninga eða 28 vinninga af 28 mögulegum! Sveitin jafnaði þar með árangur A sveitar Fjölnis sem lék sama leikinn fyrir tveimur árum og var þá haft á orði að það met yrði seint jafnað.

En sigurgöngu félagsins var hvergi nærri lokið. Breiddin er mikil og aðrar sveitir félagsins einnig mjög sterkar. Bæði B og C sveitir félagsins voru í toppbaráttunni og enduðu að lokum í þriðja og fjórða sæti með 17 ½ vinning þar sem C sveitin tók nokkuð óvænt bronsið á stigum. Einungis A sveit Hugans sem endaði í öðru sæti með 20 ½ vinning kom í veg fyrir þrefaldan sigur félagsins. Þessar sveitir unnu báðar gullið í sínum flokki, líkt og allar aðrar sveitir félagsins.

Isl_unglingasveita_2015-51

B sveitin. Aron Þór, Róbert, Misha og Guðmundur Agnar.

B sveitina skipuðu þeir Aron Þór Mai, Róbert Luu, Mikhailo Kravchuk og Guðmundur Agnar Bragason. Til marks um styrk sveitarinnar þá fóru allir þessir strákar mikinn á Bikarsyrpu félagsins í fyrra og í ár sigraði Róbert á fyrsta mótinu af sex og Guðmundur Agnar varð í öðru sæti.

Isl_unglingasveita_2015-50

C sveitin. Þorsteinn, Jón Þór, Daníel Ernir og Alexander Oliver.

C sveitin kom sannarlega á óvart með frábærri frammistöðu og lagði t.a.m. A sveit Fjölnis að velli á leið sinni að bronsinu. Sveitina skipuðu þeir Þorsteinn Magnússon, Jón Þór Lemery, Daníel Ernir Njarðarson og Alexander Oliver Mai en allir eru þessir strákar mjög virkir, mæta á allar æfingar og flest mót sem eru í boði. Allir taka þeir þátt í opnum flokki Haustmóts TR sem nú er í gangi og eru allir að standa sig vel og flestir í toppbaráttunni.

Isl_unglingasveita_2015-9

D sveitin að störfum. Jason Andri, Svava, Alexander Már og Alexander.

D sveit félagsins skipuðu þau Arnar Milutin Heiðarsson, Jason Andri Gíslason, Svava Þorsteinsdóttir, Alexander Már Bjarnþórsson og Alexander Björnsson. Sveitin hlaut 15 vinninga og endaði í sjöunda sæti sem er prýðisárangur og varð t.d. einungis einum vinning á eftir A sveit Fjölnis.

Isl_unglingasveita_2015-55

E sveitin. Björn, Kristján Dagur og Eldar í þungum þönkum.

E sveitina skipuðu þeir Björn Magnússon, Kristján Dagur Jónsson, Eldar Sigurðarson og Gabríel Sær Bjarnþórsson. Allt mjög virkir strákar og í mikilli framför. Sveitin endaði með 50% árangur, alls 14 vinninga og í níunda sæti sem er stórgóður árangur. Þannig endaði sveitin t.d. fyrir ofan B sveitir Hugans og Breiðabliks.

Isl_unglingasveita_2015-34

F sveitin. Fyrsta borðsmaðurinn Sævar passaði upp á að halda kjörhitastigi á reiknivélinni. Honum við hlið Árni og bræðurnir Benedikt og Bjartur

F sveitina skipuðu þeir Sævar Halldórsson, Árni Ólafsson, Stefán Geir Hermannsson og bræðurnir Benedikt og Bjartur Þórissynir. Þar var Árni drjúgur og halaði inn heila fimm vinninga í sjö skákum, en einnig krækti Stefán Geir í þrjá vinninga í fjórum skákum. Sveitin endaði með 13 vinninga og varð fyrir ofan C sveitir Breiðabliks og Fjölnis.

Isl_unglingasveita_2015-35

G sveitin. Hinar ungu og efnilegu Freyja, Vigdís Tinna, Batel Mirion og Esther Lind að störfum.

G sveitina skipuðu mjög ungar og þrælefnilegar stúlkur og fóru þær mikinn. Á fyrsta borði tefldi Freyja Birkisdóttir sem einungis er níu ára. Hún er systir bræðranna Björns og Bárðar sem tefldu með A sveitinni og mikið efni. Á öðru borði tefldi Vigdís Tinna Hákonardóttir, á þriðja borði Batel Mirion Tesfamheret og á fjórða borði var Elsa Kristín Arnaldardóttir. Hún fór síðan á landsleik Íslands og Lettlands í fótbolta og þá kom inn í sveitina Esther Lind Valdimarsdóttir. Allt stelpur sem æfa af kappi með félaginu og árangurinn lét ekki á sér standa. Sveitin hlaut 14 vinninga og endaði í 11. sæti.

Isl_unglingasveita_2015-79

I sveitin unga ásamt liðstjóra og þjálfara sínum Sigurlaugu. Karítas Ólöf Ísfeld Hafsteinsdóttir, Marsibil Þóra Ísfeld Hafsteinsdóttir, Sólveig Freyja Hákonardóttir og Birta Marína Axelsdóttir.

H og I sveitir félagsins voru einnig skipaðar ungum stúlkum sem allar sækja reglulega stúlknaæfingar félagsins. H sveitina skipuðu þær Vigdís Lilja Kristjánsdóttir, Iðunn Helgadóttir, Anna Sigríður Kristófersdóttir og Benedikta Fjóludóttir. Sveitin endaði með sjö vinninga og mótið fer beint í reynslubankann. I sveitina skipuðu systurnar Karítas Ólöf Ísfeld Hafsteinsdóttir, Marsibil Þóra Ísfeld Hafsteinsdóttir, Sólveig Freyja Hákonardóttir og Birta Marína Axelsdóttir. Vinningarnir létu á sér standa að þessu sinni en nokkuð ljóst að þeim á eftir að fjölga til muna á næstu árum!

Isl_unglingasveita_2015-36

H sveitin. Vigdís Lilja Kristjánsdóttir býr sig undir að leika. Við hlið hennar Iðunn Helgadóttir og Anna Sigríður Kristófersdóttir

Sannarlega frábær framganga hjá TR krökkunum. Alls tíu gull af tíu mögulegum og magnaður árangur síðasta árs bættur. Framtíðin í barna -og unglingastarfi félagsins er sannarlega björt. Til merkis um breiddina í starfi félagsins þá voru tugir krakka sem sóttu æfingar félagsins meðan mótið fór fram.

Isl_unglingasveita_2015-104

Hluti af hinum sigursælu krökkum úr TR ásamt Sigurlaugu Friðþjófsdóttur.

Taflfélag Reykjavíkur vill þakka öllum þeim sem tefldu fyrir félagið, öllum þeim fjölmörgu foreldrum sem aðstoðuðu meðan mótið fór fram, og síðast en ekki síst andstæðingum okkar fyrir skemmtilega og drengilega keppni. Sérstakar þakkir fær Páll Sigurðsson hjá TG sem skráði úrslit hratt og örugglega og sá til þess að mótið gékk snuðrulaust fyrir sig.