Nýir félagsmenn í T.R. og fleiri viðburðir vikunnar!



 

Vikan sem nú er á enda var á ýmsan hátt viðburðarík hjá Taflfélagi Reykjavíkur. Félaginu áskotnaðist liðsauki 12 erlendra skákmanna sem koma frá Rússlandi, Ungverjalandi, Azerbaijan, Ísrael, Bandaríkjunum, Úkraínu, Hollandi, Danmörku og Færeyjum.

 

Það er mér mikil ánægja að kynna eftirfarandi skákmeistara sem nýja félagsmenn í T.R og bjóða þá sérstaklega velkomna í félagið.:

  • GM Anatoly Karpov, fyrrverandi heimsmeistari í skák, frá Rússlandi, Elo 2617.
  • GM Vasily Papin, frá Rússlandi, Elo 2583.
  • GM Judit Polgar, frá Ungverjalandi, Elo 2701, stigahæsta skákkona heims frá upphafi og sem stendur 48 stigahæsti skákmaður heims.
  • GM Vugar Gashimov, frá Azerbaijan, Elo 2756, stigahæsti skákmaður Azerbaijan og 11. stigahæsti skákmaður heims.
  • GM Emil Sutovsky, frá Ísrael, Elo 2690, næst stigahæsti skákmaður Ísraels.
  • GM Gata Kamsky, frá Bandaríkjunum, Elo 2756, 11. stigahæsti skákmaður heims ásamt Gashimov. Stigahæsti skákmaður Bandaríkjanna.
  • GM Yuriy Kryvoruchko, frá Úkraínu, Elo 2666, 80. stigahæsti skákmaður heims.
  • GM Martyn Kravtsiv, frá Úkraínu, Elo 2583.
  • GM Mikhailo Oleksienko, frá Úkraínu, Elo 2563.
  • GM Jan Smeets, frá Hollandi, Elo 2619.
  • IM Jakob Vang Glud, frá Danmörku, Elo 2496.
  • IM Helgi Dam Ziska, frá Færeyjum, Elo 2460, stigahæsti skákmaður Færeyja.

 

Fyrir utan þessa skákmeistara er það mér einnig mikil ánægja að bjóða Karl Þorsteins, alþjóðlegan meistara, Elo 2469, hjartanlega velkominn tilbaka til síns gamla félags! Með þessa menn innanborðs auk okkar frábæru skákmanna sem fyrir eru, erum við í meira lagi tilbúin í slaginn á Íslandsmóti skákfélaga tímabilið 2011-2012!

Þar að auki vil ég nefna að Friðrik Ólafsson stórmeistari og félagsmaður í T.R. keppti á Norðurlandamóti öldunga sem fram fór í T.R. frá 10. –18. september. Hann var stigahæstur þeirra 52 skákmanna sem tóku þátt og lenti í 3. sæti með 6,5 vinning af 9 mögulegum, hálfum vinningi á eftir Norðurlandameistara öldunga fidemeistaranum Jorn Sloth frá Danmörku og stórmeistarnum Yrjo A. Rantanen frá Finnlandi sem fengu 7 vinninga. Það var svo sannarlega skemmtilegt að sjá Friðrik tefla á heimavelli!

 

Á meðan Friðrik var að berjast við öldungana í Norðurlandamótinu var einn af yngstu kynslóð T.R.inga, Vignir Vatnar Stefánsson, að keppa á Evrópumóti ungmenna í Búlgaríu. Vignir keppir í flokki drengja undir 8 ára aldri. Þegar hér er komið sögu (18. sept.) hefur hann fengið 4,5 vinning af 7 vinningum. Hann byrjaði mjög vel og fékk 4,5 vinning úr fyrstu 5 umferðunum! Vignir Vatnar á framtíðina fyrir sér og við óskum honum góðs gengis í síðustu umferðunum!

 

Barna –og unglingastarf T.R. hefur farið vel af stað. Laugardagsæfingarnar fyrir 12 ára og yngri hafa verið vel sóttar frá því þær byrjuðu 3. september. Unglingaflokkurinn hefur sömuleiðis farið vel af stað og mikill áhugi er í hópnum.

Fimmtudagsmótin eru komin á fulla ferð og Haustmót T.R. hefst á sunnudaginn kemur 25. september.

 

Starfsemi T.R. er sem sagt komin á fullt og útlit fyrir mjög skemmtilegan vetur!

 

Pistill frá formanni T.R.

Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir