Lög

Grundvallarlög Taflfélags Reykjavíkur

(með síðari breytingum)
I. KAFLI – Félagið

1. gr.
Félagið heitir Taflfélag Reykjavíkur og er skammstafað T.R. Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík.

II. KAFLI – Hlutverk

2. gr.
Tilgangur félagsins er að iðka skáklist og efla félagsstarf sem best í þeirri grein. Skulu í því skyni haldnar æfingar og kappmót fyrir félagsmenn. Enn fremur skal félagið beita sér fyrir útbreiðslu skáklistarinnar.

III. KAFLI – Félagsmenn

3. gr.
Rétt til inngöngu í félagið hafa allir einstaklingar, að þeim undanskildum, sem reknir hafa verið úr félaginu skv. 7 gr. Hinir síðarnefndu verða að senda inngöngubeiðni sína til stjórnar félagsins, sem tekur um hana ákvörðun.

Nýir félagsmenn fá ekki atkvæðisrétt á almennum félagsfundum eða aðalfundum fyrr en þeir hafa verið að minnsta kosti sex mánuði í félaginu. Séu þeir hins vegar kosnir í stjórn félagsins innan þess tíma, skulu þeir þá þegar fá fullan atkvæðisrétt.

4. gr.
Fullgildir félagsmenn. Árgjald fullgildra félagsmanna skal ákveðið á aðalfundi hverju sinni. Fullgildir félagar teljast þeir félagsmenn, sem eru skuldlausir og ekki fullgildir félagar í öðrum taflfélögum. Þeir hafa rétt til þátttöku í allri starfsemi félagsins, samanber þó 7. gr.

Unglingar. Aðalfundur ákveður árgjald félagsmanna 17 ára og yngri.

5. gr.
Styrktarfélagar. Félagið getur haft styrktarfélaga, sem vilja styrkja félagið og efla skáklistina. Þeir greiða félaginu árgjald, sem þeir ákveða sjálfir.

Heiðursfélagar. Félagið getur á aðalfundi, með 3/4 atkvæða, kosið heiðursfélaga. Þeir skulu hafa réttindi fullgildra félaga, en eru gjaldfrjálsir. Stjórn Taflfélags Reykjavíkur skal bera upp tillögu um heiðursfélaga á aðalfundi félagsins.

IV. KAFLI – Stjórn

6. gr.
Stjórn félagsins skipa sjö menn; formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri, æskulýðsfulltrúi, umsjónarmaður eigna og varagjaldkeri.  Hluti stjórnar skal skipa mótanefnd sem fer með skipulag og utanumhald vegna mótahalds félagsins og skal fjöldi nefndarmanna miðast við 2-3 stjórnarmenn, eða eftir því sem stjórn ákveður hverju sinni.

Varastjórn félagsins skipa fjórir menn.

Stjórnin er kosin á aðalfundi félagsins. Fyrst er kosinn formaður, síðan sex stjórnarmenn í einu lagi og þá næst fjórir varamenn í einu lagi. Kjörtímabil stjórnar skal vera eitt ár.

Reikningsár félagsins skal vera almanaksárið.

7. gr.
Stjórnin fer með málefni félagsins á milli aðalfunda og kemur fram sem fulltrúi þess og málsvari. Henni ber að gæta hagsmuna félagsins og virðingar í öllum greinum.

Stjórninni er heimilt að beita félagsmönnum viðurlögum eða brottrekstri, brjóti þeir alvarlega gegn hagsmunum félagsins. Ef vísa á manni úr félaginu eða setja hann í keppnisbann, þurfa 2/3 hlutar stjórnar að vera því sammála.

Stjórnin hefur umsjón með öllum eignum félagsins.

Stjórnarmenn skulu eiga rétt á að vera fulltrúar félagsins á aðalfundi Skáksambands Íslands. Séu fulltrúar færri en nemur tölu stjórnarmanna, skal stjórnin velja úr sínum hópi þá, sem sitja skulu aðalfund S.Í. Séu fulltrúar T.R. á aðalfundi S.Í. hins vegar fleiri en nemur tölu stjórnarmanna, skulu varamenn í stjórninni eiga rétt til fundarsetu eftir því, sem röð þeirra segir til um.

8. gr.
Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum samkvæmt 6. gr. Skal það gert á stjórnarfundi, svo fljótt sem við verður komið að kosningu lokinni.

Verkaskipting stjórnar skal kynnt fyrir félagsmönnum. Stjórnin ber sameinginlega ábyrgð á meðferð allra félagsmála og hefur samstarf um þau á þann hátt sem best þykir henta í hverju einstöku tilfelli.

9. gr.
Allar ályktanir og bindandi ákvarðanir stjórnar í nafni félagsins skulu gerðar á stjórnarfundi með meirihluta atkvæða og bókaðar ásamt rökstuðningi í fundargerðarbók.

V. KAFLI – Fundir

10. gr.
Aðalfundur er æðsta vald félagsins. Hann skal haldinn í maí ár hvert, ellegar eigi síðar en í kringum mánaðarmótin maí/júní. Skal til hans boðað með auglýsingu í fjölmiðlum, s.s. vefmiðlum og í skákheimili félagsins með að minnsta kosti fimm daga fyrirvara.

Í auglýsingunni skal getið þeirra mála, sem kunnugt er að lögð verði fyrir fundinn, auk venjulegra aðalfundarstarfa, samanber 11. gr.

Sé þannig til fundarins boðað er hann ályktunarfær ef hann sitja að minnsta kosti 10 fullgildir félagar. Stjórn félagsins skal leggja fram skýrslu stjórnar og endurskoðaða reikninga minnst fimm dögum fyrir aðalfund.

11. gr.
Verkefni aðalfundar skulu vera þessi:
Formaður félagsins setur aðalfund og lætur kjósa fundarstjóra og fundarritara sem taka þegar til starfa.
Kynnt fundargerð síðasta aðalfundar.
Formaður flytur skýrslu stjórnar.
Gjaldkeri leggur fram endurskoðaða reikninga og gerir grein fyrir þeim.
Umræður um störf stjórnar og afgreiðsla reikninga.
Lögð fram fjárhagsáætlun fyrir næsta starfsár og tillaga um árgjöld félagsmanna. Almennar umræður og afgreiðsla.
Kosning stjórnar samkvæmt 6. gr. laga félagsins.
Kosnir tveir endurskoðendur og einn til vara.
Breytingar á lögum og reglum félagsins.
Önnur mál.

12. gr.
Við stjórnar- og nefndarkjör í félaginu skal þeirri reglu fylgt, að kjósa aftur, þegar atkvæði falla jöfn. Hlutkesti skal ráða, falli atkvæði jöfn í annað sinn.

13. gr.
Á félagsfundum leggur formaður fram dagskrá í fundarbyrjun og lætur kjósa fundarstjóra. Með samþykki fundar má breyta röð dagskrárliða.
Á fundinum ræður einfaldur meirihluti úrslitum mála, nema öðruvísi sé ákveðið í lögum þessum. Tillögu- og atkvæðisrétt hafa aðeins fullgildir félagsmenn.

14. gr.
Heimilt er stjórninni hvenær sem er að kalla saman aukafund, ef hún fær til meðferðar eitthvert það mál, sem hún telur hentugra að fá umsögn félagsmanna um, áður er hún ræður því til lykta.

Sömuleiðis er henni skylt að kalla saman aukafund ef 10 fullgildir félagsmenn eða fleiri beiðast þess skriflega og tilgreina fundarefni. Á aukafundi má ekki taka fyrir önnur mál en þau, sem auglýst hafa verið í fundarboðinu.

VI. KAFLI – Breytingar á lögum, slit o.fl.

15. gr.
Lög þessi skulu vera grundvallarlög fyrir Taflfélag Reykjavíkur.

Skulu þau vera aðgengileg félagsmönnum. Lögunum má aðeins breyta á aðalfundi með 3/4 atkvæða, enda hafi breytingartillögurnar fyrst verið ræddar á stjórnarfundi og síðan gerðar aðgengilegar, félagsmönnum til athugunar, að minnsta kosti í 14 daga fyrir aðalfund.