Wow air stórmótið hófst í gær



Wow air mótið – Vormót Taflfélags Reykjavíkur hófst í gærkvöldi í skákhöll félagsins að Faxafeni 12.  Mótið er nú haldið í fyrsta sinn og keppt er í tveimur stigaflokkum, A flokki fyrir skákmenn yfir 2200 elo skákstig og B flokki fyrir skákmenn á bilinu 2000-2199 elo.  Það má með sanni segja að mótinu hafi verið tekið opnum örmum því margir af okkar sterkustu skákmönnum taka þátt og gera Wow air mótið að einu sterkasta skákmóti hér innanlands í háa herrans tíð. 

Alls taka 22 skákmenn þátt í A flokknum en meðal þátttakenda þar eru sex stórmeistarar, þeirra á meðal fyrsti stórmeistari Íslands Friðrik Ólafsson, margfaldur Íslandmeistari í skák Hannes Hlífar Stefánsson og nýjasti stórmeistarinn okkar, Hjörvar Steinn Grétarsson.   Þrír alþjóðlegir og fjórir Fide meistarar eru einnig meðal þátttakenda ásamt tveimur af okkar efnilegustu skákmönnum sem var boðið að taka þátt í flokknum, en það eru þeir Oliver Aron Jóhannesson og Dagur Ragnarsson.  Þeir fá hér frábært tækifæri til að spreyta sig gegn sterkustu skákmönnum landsins.   

 

Í B flokknum tefla 16 skákmenn.  Stigahæstur er Hrafn Loftsson en meðal annarra keppenda má nefna skákmeistara Taflfélags Reykjavíkur Kjartan Maack og ungstirnið Vignir Vatnar Stefánsson.  Flokkurinn er góð blanda af “gömlum refum” og ungum og upprennandi skákmönnum sem fá nú dýrmæta reynslu, og væntanlega helling af stigum í sarpinn.

Eftir að Björn Jónsson formaður Taflfélags Reykjavíkur hafði sett mótið og leikið fyrsta leiknum í skák stórmeistarans Hannesar Hlífars Stefánssonar og Þorvarðar Ólafssonar hófst taflmennskan og var hart barist.  Í A flokki var mikið um óvænt úrslit, og fóru ungu boðsgestirnir þar hamförum.  Tveir Fide meistarar lágu þá í valnum en Oliver Aron (2115) sigraði þá óvænt Sigurbjörn Björnsson (2360) meðan Dagur Ragnarsson (2105) vann Guðmund Gíslason (2314).   Þá náði Sigurður Páll Steindórsson (2215) góðu jafntefli gegn stórmeistaranum Þresti Þórhallssyni (2435).  Þá má nefna að alþjóðlegi meistarinn Sævar Bjarnarson (2101) sem lætur sig aldrei vanta á skákmót sigraði Jónas Þorvaldsson (2286).  Önnur úrslit voru nokkuð eftir bókinni, en töluvert var um yfirsetur í fyrstu umferð, en tvær slíkar eru leyfðar í þessu sjö umferða móti.

 

Í B flokki voru úrslitin nokkuð eftir bókinni, en þó má nefna góð jafntefli hjá Jóhanni Helga Sigurðssyni (2029) gegn Hrafni Loftssyni (2184) og Birki Karli Sigurðssyni (1738) gegn Arnaldi Loftssyni (2078).  Ungstirnið Vignir Vatnar Stefánsson (1844) gerði jafntefli við Kjartan Maack (2121) en það er löngu hætt að koma mönnum á óvart þótt þessi ellefu ára drengur nái góðum úrslitum gegn sér miklu stigahærri andstæðingum.

Önnur umferð Wow air mótsins fer fram næstkomandi mánudagskvöld, en þá munu mætast meðal annarra Fidemeistarinn Ingvar Þór Jóhannesson og stórmeistarinn Hannes Hlífar Stefánsson, Hjörvar Steinn Grétarsson og Oliver Aron Jóhannesson og Þröstur Þórhallsson mun tefla við Lenku Ptacnikovu.

 

Gestir eru velkomnir á þetta stórmót í Faxafeni 12 og við hlökkum til að sjá ykkur!

  • Úrslit, staða og pörun: A flokkur   B flokkur
  • Skákir: 1  2  3  4  5  6  7
  • Myndir
  • Wow air mótið