Vignir Vatnar sigraði alþjóðlega meistarann



IMG_7843

Það var við hæfi að langalangafi Vignis Vatnars, Pétur Zophoniasson, fylgdist með pilti leggja alþjóðlega meistarann.

Það var svo sannarlega engin lognmolla í þriðju umferð Skákþings Reykjavíkur sem fór fram í dag og sögðu keppendur hefðbundnum úrslitum stríð á hendur.  Allmikið var um óvænt úrslit og ber þar fyrst að nefna sigur hins unga en margreynda Vignis Vatnars Stefánssonar (2071) á alþjóðlega meistaranum Birni Þorfinnssyni (2418), og það með svörtu mönnunum!  Um snarpa viðureign var að ræða þar sem alþjóðlegi meistarinn treysti á flækjur til að rugla þann unga í ríminu.  Hin flóknu vopn Björns reyndust þó ekki betur en svo að þau snérust í höndum hans enda Vignir öllu vanur í flækjum og taktískum stöðum.  Glæsilegur sigur hjá Vigni Vatnari og það er skemmtilegt að segja frá því að við upphaf umferðarinnar heyrðist því fleygt að það styttist í sigra hjá hinum unga Vigni gegn meisturunum.

IMG_7834

Jóhann H. Ragnarsson vann sigur á margföldum Reykjavíkurmeistara, Jóni Kristinssyni.

Á öðru borði þurfti alþjóðlegi meistarinn Guðmundur Kjartansson (2456) að sætta sig við jafntefli gegn norðlendingnum knáa Mikael Jóhanni Karlssyni (2161).  Það má þó deila um hver þurfti að sætta sig við hvað því þegar upp var staðið mátti Guðmundur prísa sig sælan með að halda jöfnu í endatafli hvar hann hafði um tíma hrók og peð gegn biskupi og fjórum peðum Mikaels.

Fleiri athyglisverð úrslit litu dagsins ljós og mátti til að mynda Jón Kristinsson (2240) lúta í gras fyrir Jóhanni H. Ragnarssyni (2008) og þá vann Jóhann Arnar Finnsson (1598) góðan sigur á Eiríki K. Björnssyni (1961) en Jóhann Arnar hefur farið vel af stað.  Þá lagði Héðinn Briem (1546) Dawid Kolka (1897) og aukinheldur voru nokkur jafntefli þar sem nokkur stigamunur var á milli keppenda.

IMG_7816

Jón Úlfljótsson gerði jafntefli við Þór Valtýsson.

Önnur úrslit á efstu borðum voru þau að stórmeistarinn Stefán Kristjánsson (2471) sigraði Þorvarð F. Ólafsson (2206) og alþjóðlegi meistarinn Jón Viktor Gunnarsson (2455) hafði betur gegn Oliver Aroni Jóhannessyni (2198) og hefndu þeir því fyrir óvænt töp gegn sömu andstæðingum á Skákþingi síðasta árs.  Þá sigraði Guðmundur Gíslason (2307) Einar Valdimarsson (2015) laglega í endatafli.

IMG_7839

Hörð barátta á Skákþinginu.

Þegar þriðjungur er liðinn af móti hafa sex keppendur fullt hús vinninga og ljóst er að nú fara í hönd mikilvægar umferðir sem gefa tóninn fyrir lokasprettinn.  Fjórða umferð fer fram á miðvikudagskvöld og þá mætast á efstu borðum Stefán og Dagur Ragnarsson (2219), Jón Viktor –eigi skal gráta Björn bónda, heldur safna liði og hefna– og Vignir Vatnar, sem og Guðmundur Gíslason og Jóhann H. Ragnarsson.  Á fjórða borði verður svo hörð rimma alþjóðlegu meistaranna Björns og Guðmundar.

Venju samkvæmt hefst taflmennskan klukkan 19.30 og það er vissara að koma og fylgjast með.