Vetrarmót öðlinga hafiðFyrsta umferð í Vetrarmóti öðlinga fór fram á miðvikudagskvöld í húsakynnum Taflfélags Reykjavíkur.  Úrslit voru öll eftir bókinni ef frá er skilinn sigur Kristins Jóns Sævaldssonar á alþjóðlega meistaranum, Sævari Bjarnasyni, en 355 elo stig skilja þá félagana af.  Þá gerðu hjónakornin, Jóhann H. Ragnarsson og Sigurlaug R. Friðþjófsdóttir, jafntefli.

 

29 keppendur eru skráðir til leiks sem telst ágætis þátttaka en mótið er nú haldið öðru sinni eftir frábærar viðtökur í fyrra þegar tæplega 50 keppendur tóku þátt.  Stigahæstur með 2202 elo stig er Þorvarður F. Ólafsson  en næstir koma Júlíus L. Friðjónsson og Gylfi Þórhallsson.  Þorvarður verður að teljast sigurstranglegastur en hann fær án efa verðuga keppni frá andstæðingum sínum og þá verður áhugavert að fylgjast með gengi Sævars sem var í miklum ham á nýafstöðnu Haustmóti.

 

Önnur umferð fer fram á miðvikudagskvöld og þá mætast á efstu borðum Þorvarður og Siguringi Sigurjónsson, Kjartan Ingvarsson og Júlíus, Gylfi og Bjarni Sæmundsson.

Úrslit, staða og pörun