Vel sóttar laugardagsæfingar



Barnaæfingar Taflfélags Reykjavíkur, betur þekktar sem laugardagsæfingar, halda áfram að sækja í sig veðrið og eykst aðsókn á þær jafnt og þétt.  Er nú svo komið að á fjórða tug barna er farinn að leggja leið sína í Faxafenið klukkan tvö á laugardögum.  Á flestum æfinganna má sjá ný andlit ásamt þeim sem eru orðin vel sjóuð og mæta nánast hvern einasta laugardag.

Reynt er að hafa laugardagsæfingarnar sem fjölbreyttastar og áhersla er lögð á mismunandi þætti skákarinnar hverju sinni.  Skáksviðið er mjög breytt og reynt er að fara yfr eins mikið og kostur er, allt frá því hvernig á að máta með kóngi og drottningu gegn kóngi yfir í það hvernig á að hegða sér á skákstað.

Á síðastliðinni æfingu var til dæmis farið yfir endatöfl og sá Torfi Leósson, hraðskákmeistari T.R. og nýkrýndur hraðskákmeistari Reykjavíkur og einn af umsjónarmönnum laugardagsæfinganna, um að tefla hinar ýmsu endataflsstöður við börnin.

Þá var því lýst yfir að tvö efstu börnin í skákmóti dagsins myndu fá þátttökurétt í Barnablitz mótinu sem haldið verður í tengslum við Reykjavík Open.  Það voru þeir Róbert Leó Jónsson og Dawid Kolka sem tryggðu sér tvö efstu sætinn og fá því að spreyta sig í fyrrnefndu móti.

Til gamans má geta þess að börnin fá stig eftir árangri og mætingu á laugardagsæfingarnar og til marks um spenninginn sem er hjá börnunum er rétt að grípa niður í pistli síðastliðinnar æfingar, sem Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir formaður T.R. og umsjónarmaður æfinganna, ritaði:

“Undirritaðri þótti mjög skemmtilegt að heyra frá einni mömmunni hvað strákurinn hennar lifir sig inn í skákæfingarnar og fylgist grannt með þegar pistillinn kemur með nýjustu stigunum! Það var verst að hann gat varla farið að sofa á kvöldin ef pistillinn var ekki kominn! Þannig að ég ætla að reyna að bæta úr því og senda pistilinn fyrr en vanalega, svo að þetta sé ekki alltof spennandi og drengurinn missi svefn!”

Pistillinn er því að sjálfsögðu kominn inn á heimasíðu Taflfélagsins líkt og pistlar allra æfinganna sem hafa farið fram.  Stráksi ætti því að geta sofið vært næstu nætur!

Rétt er að benda á að ókeypis aðgangur er á æfingarnar og eru foreldrar og forráðamenn barna 12 ára og yngri hvattir til að mæta með börnum sínum hafi þau áhuga á að kynnast heimi skákarinnar betur.  Æfingarnar fara fram á laugardögum klukkan 14 í húsnæði félagsins að Faxafeni 12 en húsið opnar 13.45.

  • Pistlar laugardagsæfinga