Um félagið

Stofnun Taflfélags Reykjavíkur

Upphafið að stofnun Taflfélags Reykjavíkur, haustið 1900, kom frá Danmörku, eins og svo margt annað gott á þessum tíma. Þar hafði Pétur Zóphóníasson stundað nám og kynnst starfsemi danskra taflfélaga. Hann sneri nú heim, sumarið 1900, og ákvað að láta á reyna, hvort hægt væri að stofna taflfélag í Reykjavík.

Pétur Zóphóníasson hóf nú að smala saman skákáhugamönnum í Reykjavík og leitað
fyrst til móðurbróður síns, Sturlu Jónssonar kaupmanns, sem var ágætur skákmaður. Fleiri bættust við, m.a. Sigurður Jónsson fangavörður, en skák var nokkuð tefld í fjölskyldu hans.

Að lokum var ákveðið, að láta „tafllista” liggja frammi á vel völdum stöðum. Nú skyldi reyna á, hvort áhugi væri fyrir stofnun taflfélags í Reykjavík. Hinn 2. október 1900 rituðu forsvarsmennirnir þrír, Pétur, Sigurður og Sturla, auglýsingu og sendu í blöðin. Þar var stofnun T.R. auglýst og áhugasamir menn beðnir að mæta til skráningar.

Stofnun T.R. auglýst

Þeir sem rituðu sig á tafllistann eru beðnir að mæta í húsi Jóns Sveinssonar á laugardaginn kl.9 síðdegis.

Reykjavík 2. okt.1900

Pétur Zóphoníasson, Sigurður Jónsson, Sturla Jónsson.

(Þjóðólfur, föstudaginn 5. október 1900. (Auglýsing) & Ísafold, miðvikudaginn 3. október 1900 (Auglýsing).)

Það merkilega var, að stóru blöðin, Ísafold og Þjóðólfur, sáu ekki ástæðu til, að greina frá stofnun Taflfélags Reykjavíkur (jafnvel þó ritstjórasonurinn Ólafur Björnsson í Ísafold væri meðal stofnenda). Það þurfti kostaða auglýsingu til.

Stofnfundur T.R. fór fram 6. október 1900 í „húsi Jóns Sveinssonar” trésmiðs í Pósthússtræti 14b, á horni Kirkjustrætis.  Þar rak dóttir Sigurðar Jónssonar fangavarðar, sem varð fyrsti formaður félagsins, kaffiteríu og leyfði skákmönnum að nota aðstöðuna til skákiðkunar.
Stofnfélagar Taflfélagsins voru 29 talsins, flestir úr „efri millistétt”. Þeir voru:

Pétur Zóphóníasson

Pétur Zóphóníasson

  • Sigurður Jónsson fangavörður
  • Pétur Zóphóníansson gagnfræðingur
  • Sturla Jónsson kaupmaður
  • Pétur Pétursson bæjargjaldkeri
  • Friðrik Jónsson kaupmaður
  • Einar Benediktsson athafnamaður og skáld
  • Björn M. Ólsen rektor
  • Indriði Einarsson assessor og skáld
  • Jakob Jónsson verslunarstjóri
  • Ingvar Pálsson kaupmaður
  • Helgi Helgason verslunarstjóri
  • Júlíus Guðmundsson kaupmaður
  • Pétur Bogason læknir
  • Skúli Bogason læknir
  • Sturla Guðmundsson cand. phil.
  • Sigurður Guðmundsson prestur
  • Jens Waage bankastjóri
  • Ágúst Sigurðsson prentari
  • Pétur G. Guðmundsson prentiðnmaður
  • Ólafur Björnsson ritstjóri
  • Sigurjón Jónsson framkvæmdastjóri
  • Þórður Sveinsson læknir
  • Baldur Sveinsson blaðamaður
  • Magnús Magnússon skipstjóri
  • Ludvig Andersen heildsali
  • og fjórir aðrir

Fyrsta stjórn félagsins var skipuð eftirfarandi:

  • Sigurður Jónsson formaður
  • Sturla Jónsson gjaldkeri
  • Pétur Zóphóníasson ritari

En athyglivert er, að enginn af stofnendum Taflfélagsins var úr svokallaðri alþýðustétt. Næst því komst Pétur G. Guðmundsson, sem átti eftir að verða ritstjóri fyrstu málgagna jafnaðarmanna á Íslandi, annar formaður Jafnaðarmannafélags Reykjavíkur, fyrsta stjórnmálafélags sömu, og átti sæti í bæjarstjórn fyrir Alþýðuflokkinn og gengdi ýmsum trúnaðarstörfum. Aðrir í stofnendahópi Taflfélags Reykjavíkur töldust meðal “heldri borgaranna”, s.s. bróðir fyrsta forseta Íslands og sonur Björns ráðherra Jónssonar, fyrsti rektor Háskóla Íslands, osfrv.

En Taflfélag Reykjavíkur var nú stofnað.