TR Íslandsmeistari skákfélaga í FR hraðskák



Í gærkvöldi fór fram fyrsta skemmtikvöld starfsársins hjá Taflfélagi Reykjavíkur. Mikið var undir enda keppt um hvorki meira né minna en Íslandsmeistaratitil taflfélaga í Fischer Random. Sjö sveitir frá fimm taflfélögum mættu til leiks, misvel mannaðar og sumar ei fullmannaðar. Það kom þó ekki að sök enda fullt af stökum og landlausum skákmönnum á vappi í höllinni sem umsvifalaust voru innlimaðir í þær sveitir sem höfðu á því þörf.

Eftir að formaður TR hafði boðið gesti velkomna var tekið til hendinni við taflmennskuna. Áttu margir framan af í mesta basli við að ná einhverjum botni í upphafsstöðurnar. Á því var þó ein undantekning því Kristján Örn Elíasson tefldi bara Pirc-vörn óháð öllum upphafsstöðum eða lit. Rakaði hann inn vinningum svo eftir var tekið.



Taflfélag Reykjavíkur sendi þrjár sveitir til leiks og tók A-sveit félagsins strax forystu með öruggum 4-0 sigri á C-sveit félagsins. Sveitin jók svo bilið jafnt og þétt í næstu sveitir og svo fór að lokum að A-sveit TR sigraði með 45,5 vinning af 48 mögulegum. Sveitina skipuðu stórmeistarinn Hannes Hlífar Stefánsson, alþjóðlegi meistarinn og Íslandsmeistarinn í Fischer Random Guðmundur Kjartansson, alþjóðlegi meistarinn og lífskúnstnerinn Arnar E. Gunnarsson og alþjóðlegi meistarinn og nýjasta búbót Taflfélagsins, hinn siðprúði og fágaði alþjóðameistari Jón Viktor Gunnarsson. Arnar og Jón Viktor sigruðu báðir alla andstæðinga sína.



Baráttan stóð því að mestu leyti um annað sætið og þar komu hnífjafnar í mark með 27 vinninga B-sveit Taflfélags Reykjavíkur og sveit taflfélagsins með stóra nafnið, Skákfélags Íslands. B-sveit TR var úrskurðað annað sætið á “matchpoints”. Sveitina leiddi lánsmaðurinn og jútjúb stjarnan FM Ingvar Þór Jóhannesson. Að sjálfsögðu hafði engin á staðnum lesið reglur keppninnar um lánsmenn og sá sem þær samdi var löngu búinn að gleyma þeim. En samkvæmt þeim hefði átt að draga einn vinning af B-sveit TR fyrir FM lánsmanninn sem ekki var gert, og þar með hefði sveit SFÍ farið upp í annað sætið! Reyndar var SFÍ einnig með lánsmenn og erfitt að ákvarða hvort rétt hefði verið að draga einnig af þeim heilan punkt eða hálfan. Ekki er ósennilegt að úrslitin verði kærð eða þá að formenn hlutaðeigandi félaga þurfi að taka 24. skáka Fischer Random einvígi í beinni sjónvarpsútsendingu til að útkljá málið.



Venju samkvæmt á skemmtikvöldum Taflfélagsins voru gerð nokkur hlé á taflmennskunni til að heimsækja vini okkar á Billiardbarnum og hefur það fyrirkomulag mælst afar vel fyrir. Verðlaunaafhendingin fór þar fram í mótslok og loks var kvöldinu slúttað þar með yfirveguðum og háalvarlegum vangaveltum um framtíð skáklistarinnar eins og vera ber.



Úrslitin má skoða nánar hér.




Næsta skemmtikvöld verður haldið 26. september á hárréttum tíma til að létta aðeins á spennunni í aðdraganda deildakeppninnar. Þá er stefnt á að tefldar verði stöður úr frægum skákum helstu skákmeistara fortíðar og nútíðar.


Taflfélag Reykjavíkur þakkar öllum þeim sem tóku þátt og gerðu þetta kvöld eftirminnilegt!