TR í undanúrslit Hraðskákkeppni TaflfélagaBjörn Þorfinnsson skrifar

Lið TR og TG mættust í hraðskákkeppni taflfélaga í gær og var glatt á hjalla. Fyrsta umferð fór 4-2 fyrir TR og bar þar hæst að TG-ingurinn Valgarð Ingibergsson hafði sigur á Þorvarði Fannari Ólafssyni og skríkti af gleði í kjölfarið. Hefur annað eins gleðikvak úr barka Valgarðs ekki ómað um sali Faxafensins síðan hann bauð upp á tilboðið „Eitt snickers á 50 krónur, tvö á 100 krónur“ í TR-sjoppunni í gamla daga sem varð til þess að fjölmargir fjárfestu í þessu kosta boði, þar á meðal undirritaður.

Valgarð átti eftir að fara illa með Þorvarð þetta kvöld en í síðari skák þeirra var TR-ingurinn aðeins með 2 sekúndur eftir í steindauðu hróksendatafli þegar Valgarð rétti honum þá ölmusu að bjóða honum jafntefli. Þáði Þorvarður boðið en sá síðar eftir því. „Þetta var verra en tap,“ sagði Varði, beygður en hvergi nærri brotinn. Þetta voru einu punktarnir sem hann missti niður þetta kvöld.

Önnur umferð fór 3½-2½ fyrir TR og var allt útlit fyrir spennandi viðureign þegar að ósköpin dundu yfir og TR vann 6-0 sigur í þriðju umferð. Eftir þetta jókst aðeins forystan jafnt og þétt og urðu lokaúrslitin 52½-19½ fyrir Taflfélag Reykjavíkur.

Bestum árangri TR-inga náði sá sem þessi orð ritar, Björn Þorfinnsson, með fullt hús, 12 vinninga af 12. Magnus Carlsen hefði vissulega ekki náð fleiri vinningum en taflmennskan var ekkert sérstaklega sannfærandi á köflum. Yfirleitt var það klukkan sem að tryggði að vinningurinn féll mér í skaut. Þorvarður Fannar fékk 10½ vinning af 12 og formaðurinn Kjartan Maack 9½ af 12. Þá er rétt að minnast á ólseiga frammistöðu Torfa Leóssonar sem tefldi fimm skákir og hlaut 4½ vinning.

Hjá TG-ingum var formaðurinn Páll Sigurðsson með bestan árangurinn eða 50% vinninga. Næstir voru Páll Snædal Andrason og Sigurjón Haraldsson með 4½ vinning af 12.

Vinningar TR:

Björn Þorfinnsson – 12 af 12
Þorvarður Fannar Ólafsson – 10½ af 12
Kjartan Maack – 9½ af 12
Eiríkur Björnsson – 8 af 12
Torfi Leósson – 4½ af 5
Jon Olav Fivelstad – 4 af 7
Ólafur Kjartansson – 4 af 12
Vinningar TG:

Páll Snædal Andrason – 4½ af 12
Sigurjón Haraldsson – 4½ af 12
Valgarð Ingibergsson – 2½ af 10
Þorlákur Magnússon – 2½ af 12
Baldur Möller – 2½ af 12
Svanberg Pálsson – 2 af 12
Páll Sigurðsson – 1 af 2