Tölvutek aðalstyrktaraðili HaustmótsinsTölvuteksmótið 2012 – Haustmót Taflfélags Reykjavíkur hófst á sunnudag þegar Hafþór Helgason, framkvæmdastjóri Tölvuteks, lék fyrsta leiknum í skák alþjóðlega meistarans, Sævars Bjarnasonar, og Gylfa Þórhallssonar.  Viðureign þeirra var söguleg í meira lagi því þeir tveir hafa teflt flestar kappskákir Íslendinga.

 

Haustmótið hefur verið haldið sleitulaust síðan 1934 ef frá eru skilin þrjú ár í kringum stríðsárin.  Tæplega 50 skákmenn hafa borið titilinn, Skákmeistari Taflfélags Reykjavíkur, þeirra oftast Björn Þorsteinsson, sex sinnum.  Í gegnum árin hefur mótið tekið á sig ýmis form en hin síðari ár hefur einkennismerki þess verið hinir lokuðu flokkar ásamt einum opnum flokki.  Ekki er langt síðan að tólf skákmenn skipuðu hvern af lokuðu flokkunum og voru umferðirnar þá ellefu.  Undanfarin ár hafa flokkarnir verið tíu manna og níu umferðir tefldar.

 

Að þessu sinni hófu 37 keppendur leik í tveimur lokuðum tíu manna flokkum og einum opnum flokki.  Þátttakan er nokkru minni en á síðasta ári en A-flokkurinn er þó örlítið sterkari en í fyrra og sama gildir raunar um B-flokkinn.  Alþjóðlegi meistarinn, Jón Viktor Gunnarsson, er langstigahæstur í A-flokki með 2410 stig en næstur honum er Fide meistarinn, Einar Hjalti Jensson, með 2305 stig.  Vestmannaeyingurinn ungi, Nökkvi Sverrisson, er stigahæstur í B-flokki og í opnum C-flokki er John Ontiveros stigahæstur með 1754 stig.

 

Það getur verið gaman að rýna í flokkana og spá fyrir um framgang mála.  Í A-flokki er Jón Viktor klárlega langsigurstranglegastur og erfitt að sjá einhvern veita honum neina keppni að ráði.  Einar Hjalta má þó ekki afskrifa þar sem hann hefur verið á mikilli siglingu eftir að hann hóf taflmennsku á nýjan leik.  Aðrir en hann og stórmeistari kvenna, Lenka Ptacnikova, eiga tæplega möguleika á að ógna Jóni Viktori.

 

Mjög fróðlegt verður að fylgjast með hinum unga og efnilega, Mikaeli Jóhanni Karlssyni, í A-flokknum en hann tryggði sér sæti í honum með sigri í B-flokki í fyrra.  Mikael er langstigalægstur í flokknum með 1933 stig, 150 stigum minna en sá næsti.  Mikael hefur því allt að vinna í þessum níu skákum og fær dýrmæta reynslu.

 

Eins og svo oft er B-flokkurinn mjög jafn og spennandi og einkennist af blöndu af yngri og eldri kynslóð skákmanna.  Nær ómögulegt er að spá fyrir um sigurvegara en reynsluboltinn og varaformaður T.R., Eiríkur K. Björnsson, verður að teljast líklegur þó svo að fulltrúar yngri kynslóðarinnar í flokknum eigi vafalaust eftir að vera nálægt toppnum.  Án þess að nokkuð sé hallað á aðra má þar nefna Fjölnismanninn, Dag Ragnarsson, sem rétt missti af sigrinum í B-flokki í fyrra og vill án efa klára dæmið til enda þetta árið.

 

Opni flokkurinn er skemmtilegur og einkennist af ungum og upprennandi skákmönnum ásamt reyndari inn á milli.  Á meðal þátttakenda eru tveir efnilegustu skákmenn landsins, Hilmir Freyr Heimisson, og hinn níu ára, Vignir Vatnar Stefánsson, en sá síðarnefndi sigraði í opna flokknum í fyrra.  Þeir tveir ásamt Ontiveros og Ingvari Agli Vignissyni munu berjast um sigurinn í flokknum.

 

Sex skákir eru sendar beint út á vefnum í hverri umferð, allar skákirnar í A-flokki og ein skák úr B-flokki.  Skákir hverrar umferðar verða að auki aðgengilegar til niðurhals.  Áhorfendur eru velkomnir á hverja umferð sem hefjast á sunnudögum klukkan 14 og miðvikudags- og föstudagskvöldum klukkan 19.30.  Úrval veitinga er í boði gegn vægu gjaldi.

  • Bein útsending
  • Úrslit, staða og pörun
  • Myndir
  • Skákir
    • 1. umf
  • Upplýsingar