Þrír leiða þriðja mót Bikarsyrpunnar!



TR-ingarnir Aron Þór Mai, Eldar Sigurðarson og Jón Þór Lemery eru efstir og jafnir með fullt hús eftir þriðju umferð í þriðja móti Bikarsyrpu Taflfélagsins.  Þrjátíu og átta af efnilegustu skákkrökkum höfuðborgarsvæðisins taka þátt sem er mesta þátttakan í Bikarsyrpunni til þessa.  Síauknar vinsældir syrpunnar er mikið gleðiefni og gæði taflmennskunnar með hinum rúmu tímamörkum greinilega meiri en oft má sjá á barna og unglingamótum.

Ýmis óvænt úrslit litu dagsins ljós strax í fyrstu umferð.  Atli Mar Baldursson lagði þá Guðmund Agnar Bragason (1327) og undirstrikaði þar með að það var engin tilviljun að hann vann gullverðlaun í flokki stigalausra á nýafstöðnu Skákþingi Reykjavíkur.  Óttar Örn Bergmann Sigfússon gerði gott jafntefli við Sævar Halldórsson (1030).  Þá gerði Alexander Björnsson jafntefli við Svövu Þorsteinsdóttur í lengstu skák umferðarinnar.

Úrslit í annarri umferð voru að mestu “eftir bókinni” en í þriðju umferð byrjuðu stigahæstu keppendurnir að mætast.  Þá sigraði Aron Þór Mai (1403) í skák sinni við Jason Andra Gíslason (1156) eftir að sá síðarnefndi lék illa af sér manni snemma skákar.  Jóhann Arnar Finnsson (1354) og Halldór Atli Kristjánsson (1179) mættust og var skák þeirra í járnum nær allan tímann og lauk með jafntefli.  Jón Þór Lemery (1147) hefur farið mikið fram í vetur og hann náði að leggja Þorstein Magnússon (1258) að velli eftir sviptingar.

Í fjórðu umferð sem hefst í fyrramálið kl. 10..30 mætast á efstu borðunum Aron Þór Mai og Eldar Sigurðarson, Jón Þór Lemery og Jóhann Arnar Finnsson, Halldór Atli Kristjánsson og Þorsteinn Magnússon og Guðmundur Agnar Bragason mætir Alexander Björnssyni.