Taflfélag Reykjavíkur Íslandsmeistari unglingasveita



Fjórar vaskar sveitir frá TR tóku þátt í Íslandsmóti unglingasveita, sem fram fór í Garðabæ í gær.
Ekki er hægt að segja annað en að árangur hafi verið með ágætum.

A-sveit félagsins gerði sér lítið fyrir og sigraði, eftir harða keppni, aðallega við sveit frá Skákdeild Fjölnis. Að lokum kom TR-sveitin í mark með 24 vinninga úr 30 skákum, hálfum vinningi á undan Fjölniskrökkunum.

Þetta var sérstaklega gleðilegt þar sem nokkrir af máttarstólpum A-liðsins eru nú á sínu síðasta ári.

Það stefnir því í kynslóðaskipti hjá félaginu á næstunni, en það virðist ekki vera ástæða til að kvíða henni. B-, C- og D-sveitir Taflfélagsins voru allar skipaðar krökkum sem voru að taka sín fyrstu skref í keppni fyrir hönd TR. Það eru því framtíðarmenn þar á ferð.

D-sveitin gerði sér m.a. lítið fyrir og hreppti verðlaun fyrir bestan árangur d-sveita og voru krakkarnir alveg að rifna af stolti. D-sveitin hlaut 13,5 vinning.

B-sveitin atti kappi við margar sterkar sveitir og endaði að lokum með 12 vinninga eftir marga harða rimmuna. Fengu krakkarnir þar ómetanlega reynslu.

Þátttaka C-sveitarinnar var sérstakt gleðiefni, en þetta var í fyrsta sinn sem TR gat sent stúlknasveit til leiks á mótið. Stelpurnar stóðu sig með mikilli prýði. Þær enduðu að lokum með 7 vinningi, en voru með eindæmum ófarsælar og hefðu átt skilið fleiri vinninga í sumum skákunum, sérstaklega í síðustu umferð. Það er hinsvegar ekki hægt að telja vinningana sem ekki skila sér í hús! og bara góð reynsla að upplifa það.

Krakkarnir stóðu sig öll með prýði og voru Taflfélagi Reykjavíkur til sóma með hegðun og áhuga. Sem marks um áhugann má nefna að þau kepptust við að æfa sig í að máta með kóng og drottningu og með kóng og hrók á milli umferða!

Liðin voru þannig skipuð:

A-lið TR
1. Friðrik Þjálfi Stefánsson
2. Páll Andrason
3. Örn Leó Jóhannsson
4. Birkir Karl Sigurðsson

B-lið TR
1. Guðmundur Freyr Magnússon
2. Gauti Páll Jónsson
3. Vignir Vatnar Stefánsson
4. Þorsteinn Freygarðsson

C-lið TR
1. Donika Kolica
2. Gabríela Íris Ferreira
3. Sólrún Elín Freygarðsdóttir
4. Halldóra Freygarðsdóttir

D-lið TR
1. Þórður Valtýr Björnsson
2. Smári Arnarson
3. Rafnar Friðriksson
4. Jakob Alexander Petersen

Liðsstjóri var Torfi Leósson