Taflfélag Reykjavíkur – Fyrir alla alltaf



Taflfélag Reykjavíkur er elsta, stærsta og öflugasta skákfélag þjóðarinnar.  Í meira en heila öld hefur það alið af sér marga af bestu skákmönnum Íslands og séð skákáhugamönnum fyrir fjöldanum öllum af skemmtilegum skákmótum og viðburðum þeim tengdum.  Það er ekki á aðra starfsemi félagsins hallað að segja að flaggskip þess hafi verið barna- og unglingastarfið sem í gegnum tíðina hefur verið vel stundað af skákþyrstum börnum og unglingum.  Frá upphafi hefur kennsla og þjálfum í barnastarfinu verið ókeypis og félagsgjöld fyrir börn eru engin.

 

Taflfélag Reykjavíkur leggur metnað sinn í að vera með faglegt starf fyrir alla, hvort sem þeir eru félagsmenn eða utan þess.  Í mótahaldi félagsins er reynt að koma til móts við óskir og þarfir sem breiðasta hóps skákmanna þannig að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi.  Skákþing Reykjavíkur og Haustmót félagsins eru tvímælalaust flaggskipin í mótahaldi þess en bæði hafa þau verið haldin í áttatíu ár og næstkomandi haust mun Taflfélag Reykjavíkur einmitt fagna 80 ára afmæli Haustmótsins.

 

Of langt mál væri hér að telja upp öll þau mót sem félagið hefur haldið í gegnum tíðina en á meðal þeirra er mikill fjöldi barna- og unglingamóta, hvort heldur sem er liða- eða einstaklingskeppnni skólamóta, Reykjavíkur- eða félagsmeistarakeppni.  Mörg mótanna hafa fest sig í sessi meðan önnur eru haldin í stakkt skipti vegna sérstaks tilefnis.  Skákmót öðlinga er gott dæmi um mótahald sem hefur heppnast vel en öðlingamótið hefur verið haldið ár hvert í áraraðir og er ætlað þeim hópi skákmanna sem kominn er á fimmtugsaldurinn.

 

„Tvíburi“ öðlingamótsins, Vetrarmót öðlinga, er gott dæmi um vilja Taflfélags Reykjavíkur til að koma til móts við óskir skákiðkenda.  Vetrarmótið hefur nú verið haldið í þrjú ár við góðan orðstír eftir að það var prufukeyrt í ljósi þess að fyrirkomulag að hafa umferðir einu sinni í viku er vinsælt meðal skákmanna.  Alltaf má þó breyta og bæta og hér má velta fyrir sér hvort þörf sé á tveimur samskonar mótum í annars þéttri mótadagskrá félagsins.

 

Í gegnum árin hefur Taflfélag Reykjavíkur reglulega staðið fyrir stórum skákviðburðum og má þar nefna alþjóðlegt stórmeistaramót sem félagið hélt síðastliðið haust en þar tóku þátt sterkir erlendir ofurstórmeistarar ásamt nokkrum af sterkustu skákmönnum þjóðarinnar.

 

Undanfarna mánuði hefur starf félagsins verið fyrirferðarmikið í íslensku skáklífi og það verður ekkert lát á því á næstunni.  Hið mikla og góða starf gæti ekki farið fram ef ekki væri fyrir öfluga bakhjarla, dyggra félagsmanna og mikillar ástundunar allra skákmanna á viðburðum félagsins.  Fyrir þennan stuðning kunna forsvarsmenn Taflfélags Reykjavíkur miklar þakkir og munu svo sannarlega halda áfram á sömu braut.  Lítum nú rétt sem snöggvast á komandi viðburði og stiklum á stóru hvað TR-ingar hafa brasað síðastliðnar vikur.

 

Árið hófst með metþátttöku í Skákþingi Reykjavíkur þar sem hátt í 80 keppendur spreyttu sig en mótið var nú haldið í 83. sinn.  Jón Viktor Gunnarsson og Einar Hjalti Jensson höfðu nokkra yfirburði í vel mönnuðu móti og komu jafnir í mark og eftir stigaútreikning var ljóst að Jón Viktor er Skákmeistari Reykjavíkur 2014.  Guðmundur Gíslason sigraði síðan á Hraðskákmótinu í kjölfarið en Róbert Lagerman er Hraðskákmeistari Reykjavíkur 2014.

 

Rimaskóli fór með sigur úr býtum á Reykjavíkurmóti grunnskólasveita en skólinn hefur verið einráður á mótinu undanfarin ár.  Félagið stóð síðan fyrir Skákkeppni vinnustaða sem er fjáröflunarmót fyrir starf félagsins og sigraði lið frá Actavis en þetta var í þriðja sinn sem mótið er haldið.  Þá var komið að Barna- og unglingameistaramót Reykjavíkur þar sem Vignir Vatnar Stefánsson og Veronika Steinunn Magnúsdóttir stóðu sig best og bera því Reykjavíkurmeistaratitlana næsta árið.

 

Þá má ekki gleyma árangri Vignis Vatnars á Norðurlandamótinu í skólaskák þar sem hann hlaut silfurverðlaun en hann var ríkjandi norðurlandameistari í sínum aldursflokki.

 

Sem fyrr voru TR-ingar fjölmennir í seinni hluta Íslandsmóts skákfélaga sem fór fram dagana 27. febrúar – 1. mars en félagið sendi fimm lið til leiks, þar af tvær barna- og unglingasveitir.  Tugir dyggra liðsmanna félagsins mættu galvaskir til leiks og héldu upp merkjum þess í harðri keppni.  Að þessu sinni var gengið brösugt en Taflfélag Reykjavíkur hefur ekki verið tilbúið í þau fjárútlát sem hefur þurft til að halda sér á toppnum í Íslandsmótinu undanfarin ár.

 

A-sveit félagsins hafnaði um miðbik fyrstu deildar en B-sveitin féll niður í aðra deild.  C-sveitin var nálægt toppnum í þriðju deildinni og lauk keppni í 4. sæti án þess þó að ná neinni raunverulegri toppbaráttu.  Þá er félagið afar stolt af unglingasveitunum sem báðar stóðu sig með sóma í fjórðu deildinni og komu hnífjafnar í mark í 6.-7. sæti en um tíma var A-sveitin í toppbaráttunni.  Það er raunar svo að félagið gæti sent mun fleiri barnasveitir til leiks en það þarf að hafa í huga að stór hluti þessa aldurshóps er að stíga sín allra fyrstu skref í skákinni.

 

Nýverið var fyrirkomulagi Íslandsmóts skákfélaga breytt en hér skal ekki farið nánar út í þær breytingar eða hvort þær hafi heppnast eða ekki.  Það er þó ljóst að meta þarf vandlega ávinninginn af þessum breytingum gegn ókostunum sem vissulega eru nokkrir.

 

Á dögunum lauk hinu glæsilega Opna alþjóðlega Reykjavíkurskákmóti sem Skáksamband Íslands heldur ár hvert en mótið átti nú 50 ára afmæli og var í tilefni þess sérlega veglegt.  Þátttökumet var slegið og nálgast keppendafjöldinn nú hraðbyri 300 markið.  Liðsmenn Taflfélags Reykjavíkur létu sig ekki vanta frekar en fyrri daginn og voru alþjóðlegu meistararnir Guðmundur Kjartansson og Daninn Simon Bekker-Jensen þeirra stigahæstir.  Simon var hársbreidd frá því að ná áfanga að stórmeistaratitli og raunar var hann líka nálægt því í Íslandsmóti skákfélaga svo það virðist eingöngu tímaspursmál hvenær áfanginn dettur í hús.

 

Sérlega ánægjulegt var að fylgjast með gengi krakkanna úr TR sem öll stóðu sig með miklum sóma og bættu þarna dýrmætri reynslu í sarpinn.  Það er athyglisvert að flest þeirra stóðu sig mun betur en skákstig þeirra segja til um og má þar til dæmis nefna hinn ellefu ára Vigni Vatnar Stefánsson sem hlaut önnur verðlaun fyrir bestan árangur miðað við eigin skákstig.  Vignir hækkar mikið á stigum (55) en Gauti Páll Jónsson (41) og Bárður Örn Birkisson (28) nældu sér einnig í góðan stigagróða.

 

Eins og komið hefur fram heldur veislan áfram hjá Taflfélagi Reykjavíkur því framundan eru fjölmargir viðburðir en fyrst skal nefna hinar sívinsælu laugardagsæfingar félagsins þar sem kennsla og þjálfun skákkrakkanna fer fram.  Æfingarnar fara fram alla laugardaga yfir vetrartímann og eru í höndum þrautreyndra kennara sem notast við nýtt og glæsilegt kennsluefni.  Algjör sprenging hefur orðið í aðsókn á æfingarnar og nýverið mættu hvorki fleiri né færri en á sjöunda tug barna sem heyrir til eindæma hin síðari ár.

 

Sem þakklætisvott fyrir þessa miklu ásókn í barnaæfingarnar ætlar félagið að halda glæsilega mótasyrpu fyrir krakka á grunnskólaaldri í kringum páskana í samstarfi við Nóa Síríus.  Þrjú mót verða haldin, 30. mars, 6. apríl og 13. apríl, og eru vegleg verðlaun í boði, meðal annars í formi ljúffengra páskaeggja frá Nóa Síríus.

 

Undanfarin misseri hefur WOW air komið inn sem öflugur bakhjarl Taflfélags Reykjavíkur og í ljósi þess góða samstarfs ákvað félagið að stofna til nýs og glæsilegs móts sem ber titilinn WOW air mótið – Vormót Taflfélags Reykjavíkur.  Er þetta enn eitt djásnið í fórum félagsins þar sem komið er til móts við þarfir skákmanna og fyllt er upp í eyður sem eru til staðar í íslensku mótahaldi.

 

Sérkenni Vormótsins mun vera það að það er eingöngu opið þeim skákmönnum sem hafa a.m.k. 2000 Elo stig en keppt verður í tveimur lokuðum flokkum; annarsvegar skákmenn með 2000 stig og meira, hinsvegar skákmenn með 2200 stig eða meira eða hafa titil að bera.  Nokkur sæti í báðum flokkum verða síðan í boði fyrir skákmenn sem ekki uppfylla skilyrðin en hafa sýnt miklar framfarir undanfarin misseri.  Er það von félagsins að þetta mót festist í sessi um ókomna tíð.  Samhliða WOW air mótinu mun síðan hið rótgróna Skákmót öðlinga fara fram og ekkert er því til fyrirstöðu að sömu keppendur taki þátt í báðum mótum uppfylli þeir öll skilyrðin.

 

Síðast en ekki síst skal nefna til leiks Skemmtikvöld TR sem verður haldið í samstarfi við Billiard barinn föstudagskvöldið 28. mars.  Þar verður mikið um að vera en stærsti viðburðurinn verður vafalítið fyrsta Íslandsmótið í Fischer random og ljóst er að margir munu keppast við að ná fyrsta Íslandsmeistaratitlinum.  Sem fyrr reynir félagið með viðburðum sínum að ná til allra hópa með því að vera með mót opin öllum sem og mót þar sem uppfylla þarf ákveðin skilyrði til þátttöku og að þessu sinni verður 20 ára aldurstakmark á skemmtikvöldið.

 

Hér hefur ekki allt verið upp talið í starfi félagsins enda er það nánast óvinnandi vegur heldur er markmiðið frekar að benda skákáhugamönnum á hvað Taflfélag Reykjavíkur aðhefst og hefur upp á að bjóða.  Fréttir af starfi félagsins eru birtar á vef félagsins, www.taflfelag.is, og ávallt má senda fyrirspurnir á taflfelag@taflfelag.is þar sem þeim er svarað fljótt og vel.

 

Taflfélag Reykjavíkur hefur verið til staðar í heila öld fyrir alla sem  hafa svo gaman að skáklistinni og það verður áfram til staðar fyrir ykkur í meira en heila öld í viðbót.  Aðsetur félagsins er í Skákhöllinni að Faxafeni 12 og það eru allir velkomnir.  Alltaf.

 

  • Heimasíða Taflfélags Reykjavíkur
  • Laugardagsæfingar TR
  • Myndir úr starfi TR