Taflfélag Reykjavíkur áfram í þriðju umferðÍ gærkvöldi fóru fram í skákhöll Taflfélags Reykjavíkur tvær viðureignir í Hraðskákkeppni taflfélaga. Annars vegar öttu kappi A sveit TR og Vinaskákfélagið, hins vegar Unglingasveit Taflfélags Reykjavíkur og Skákfélag Reykjanesbæjar.

Í viðureign TR og Vinaskákfélagsins tók heimaliðið strax forystuna og lét hana aldrei af hendi. Svo fór að lokum að Taflfélag Reykjavíkur sigraði 56 ½ – 15 ½. Í liði TR fóru Hannes Hlífar Stefánsson og Guðmundur Kjartansson mikinn og kræktu í 11 vinninga af tólf mögulegum. Þorvarður F. Ólafsson og Daði Ómarsson komu næstir með 10 ½ vinning af 12. Í liði gestanna stóð Róbert Lagerman sig best með 5 ½ af 8 og Sævar Bjarnason kom næstur með 3 ½ vinning úr 10 skákum. Róbert náði meðal annars að leggja tólffaldann íslandsmeistarann Hannes Hlífar að velli, og er það eina tapskák Hannesar í keppninni til þessa.

Skákfélag Reykjanesbæjar hafði nokkuð öruggan sigur gegn unglingasveit TR og sigraði 45 ½ – 26 ½. Unglingasveitin má vera stolt af frumraun sinni í keppninni og stóð sig frábærlega. Í fyrstu umferð keppninnar lagði sveitin UMSB örugglega og náði sveitin að þessu sinni að reyta marga vinninga af sterkri og þaulreyndri sveit Suðurnesjamanna. Í Unglingaliði Taflfélagsins fór Vignir Vatnar mikinn og hlaut 10 vinninga af 12 mögulegum. Hann tapaði einungis einni skák, gegn hinni gamalreyndu kempu Reykjanesbæjar Björgvini Jónssyni. Gauti Páll kom næstur með 6 ½ af 12. Bestum árangri Suðurnesjamanna náðu Jóhann Ingvason (10/12) og Björgvin Jónsson 7 ½ af 9.

Skákstjórn var í öruggum höndum Rúnars Berg og kunnum við honum bestu þakkir fyrir. Taflfélag Reykjavíkur vill þakka Vinaskákfélaginu og Skákfélagi Reykjanesbæjar kærlega fyrir skemmtilega og drengilega keppni.