SÞR #8: Akureyrarhraðlestin út af sporinu



Áttunda umferð Skákþings Reykjavíkur var tefld í dag og var andrúmsloftið þrungið spennu. Er upp var staðið mátti sjá ummerki um blóðugar orrustur og drýgðar hetjudáðir. Akureyrarhraðlestin fór út af sporinu, unga fólkið lét til sín taka og spennan á toppnum er magnþrungin fyrir lokaumferðina sem tefld verður á miðvikudagskvöld.

20180204_175744

Bragi Þorfinnsson og Stefán Bergsson áttust við á efsta borði í 8.umferð SÞR.

Skákheimur hefur staðið á öndinni yfir framgöngu Stefáns Bergssonar að undanförnu og hafa hvatningarskeyti borist honum víða að, enda fáheyrt að skákmaður sem er fjórtándi í stigaröðinni vinni sjö fyrstu skákir sínar. Margir fylgdust því spenntir með er Stefán (2093) stýrði svörtu mönnunum gegn Braga Þorfinnssyni (2426) í 8.umferðinni í dag. Til að gera langa sögu stutta þá fór Akureyrarhraðlestin, með Stefán Bergsson við stýrið, út af sporinu eftir viðburðaríka ferð um sprengjusvæði Kóngs-Indverjans. Bragi kunni betri skil á byrjuninni og fékk snemma unnið tafl sem hann nýtti sér til að innbyrða sigur. Bragi hefur vaxið ásmegin eftir því sem liðið hefur á Skákþingið og hefur hann nú unnið fjórar síðustu tefldar skákir sínar. Hann situr því í 2.sæti með 6 vinninga og eygir enn von um að verða Reykjavíkurmeistari í annað skipti á ferlinum.

Jafnir Braga í 2.sæti eru Hilmir Freyr Heimisson og Dagur Ragnarsson sem báðir unnu með hvítu í dag. Hilmir Freyr (2136) vann Lenku Ptacnikovu (2218) og Dagur (2332) lagði Braga Halldórsson (2082). Stefán Bergsson trónir hins vegar enn á toppnum með 7 vinninga og nægir jafntefli í lokaumferðinni.

Af öðrum úrslitum bar hæst sigur Benedikts Þórissonar (1143) á Óskari Long Einarssyni (1785) en á þeim munar 642 skákstigum. Benedikt hefur sýnt miklar framfarir að undanförnu og rýkur hann upp stigalistann þessa mánuðina. Björn Hólm Birkisson (2084) gerði einnig vel er hann náði jafntefli gegn alþjóðlega meistaranum Einari Hjalta Jenssyni (2336).

IMG_9703

Benedikt Þórisson að störfum á Skákþinginu.

Níunda og síðasta umferð Skákþingsins verður tefld á miðvikudagskvöld og verða klukkur settar í gang klukkan 19:30. Skákáhugamenn eru hvattir til þess að líta við í skáksalinn til að fá spennuna beint í æð og skeggræða stöður og gang mála. Í lokaumferðinni mætast í æsilegri toppbaráttu:

  • Stefán Bergsson – Dagur Ragnarsson
  • Hilmir Freyr Heimisson – Bragi Þorfinnsson

Nánari upplýsingar um úrslit og stöðu Skákþingsins, sem og aðgengi að skákum, má finna á Chess-Results.