SÞR #2: Mikið um óvænt úrslit – Átta með fullt húsSkákmenn létu ekki stinningskalda utandyra trufla sig við listsköpun sína er önnur umferð Skákþings Reykjavíkur var tefld, enda ávallt blíðskaparveður í skáksalnum. Óvænt úrslit litu dagsins ljós á fjórum af níu útsendingaborðum og skall hurð nærri hælum meistaranna á fleiri borðum.

IMG_9678

Einbeittir skákmeistarar í 2.umferð Skákþings Reykjavíkur.

Rithöfundurinn geðþekki Bragi Halldórsson (2082) sló á létta strengi í upphafi umferðar, eins og hans er von og vísa, áður en hann settist gegnt Einari Hjalta Jenssyni (2336) á efsta borði. 93 leikjum síðar handsöluðu þeir jafnteflissamning. Ætla má að Bragi uni vel hag sínum eftir þessi úrslit enda munar 254 skákstigum á þeim félögum.

IMG_9663

Appelsínið gaf vel í dag hjá Aroni Þór Mai.

Á 2.borði mættust fulltrúar ungliðahreyfingar Taflfélags Reykjavíkur í hörkuskák. Aron Þór Mai (2066) stýrði hvítu mönnunum á móti stórmeistarabananum Vigni Vatnari Stefánssyni (2304) og buðu þeir gestum upp á bardaga af bestu gerð. Lengi vel þótti skákáhugamönnum á kaffistofunni óljóst hvor stæði betur en er Vignir Vatnar braust í gegn á drottningarvæng var sem stríðsgæfan snérist á sveif með honum. Það var í 30.leik sem hið ótrúlega gerðist er drottning Vignis tók sér stöðu á miðju taflborðinu (e5). Í fljótu bragði virtist reiturinn sá eðlilegasti fyrir drottninguna en eftir að Aron Þór svaraði með 31.He1 þá rann upp fyrir áhorfendum að drottningin á enga undankomuleið. Frúin reyndist vera strandaglópur á miðju borði þó svo andstæðingurinn ætti aðeins helming fótgönguliða sinna eftir. Aron Þór hefur fullt hús eftir fyrstu tvær umferðirnar og er til alls líklegur á Skákþinginu.

Alþjóðlegi meistarinn Bragi Þorfinnsson (2426) stimplaði sig inn í mótið með því að leggja að velli Dagsbanann, Sigurlaugu R. Friðþjófsdóttur (1734). Þó svo stigamunurinn sé tæplega 700 stig þá var vinningurinn torsóttur fyrir Braga því mislitir biskupar virtust gefa Sigurlaugu afar góða jafnteflismöguleika. Braga lánaðist þó að gera bragarbót á stöðu sinni undir lokin sem varð til þess að Sigurlaug fann ekki nákvæmustu varnarleiðina og varð að játa sig sigraða eftir 49 leiki.

Birkir Karl Sigurðsson (1934) lét ljós sitt skína á einu af útsendingarborðunum í dag er hann stýrði hvítu mönnunum til sigurs gegn Jóhanni Ingvasyni (2161). Birkir Karl tefldi byrjunina óaðfinnanlega og lét kné fylgja kviði þannig að Jóhann sá í raun aldrei til sólar. Birkir Karl hefur fullt hús og mætir Hilmi Frey Heimissyni í næstu umferð.

Þorvarður Fannar Ólafsson (2178) mátti hafa sig allan við gegn Alexander Oliver Mai (1970) í skák þar sem endataflstækni og reynsla Varða var það sem skildi á milli. Eiríkur K. Björnsson (1934) nældi sér í jafntefli með svörtu gegn Hrafni Loftssyni (2163) á meðan skákmeistari Taflfélags Reykjavíkur, Björgvin Víglundsson (2167), hafði betur gegn Haraldi Baldurssyni (1942). Bæði Sigurbjörn J. Björnsson (2288) og Dagur Ragnarsson (2332) komust aftur á beinu brautina í dag með öruggum sigrum.

Að loknum tveimur umferðum eru átta skákmenn með fullt hús. Það væri vart í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að á meðal þeirra efstu er enginn af sex stigahæstu skákmönnum mótsins. Það er svo sannarlega saga til næsta bæjar. Skákáhugamönnum er því óhætt að spenna sætisólar og búa sig undir áframhaldandi óvænt úrslit í 3.umferð sem tefld verður á miðvikudagskvöld. Klukkur verða settar í gang klukkan 19:30 og eru skákáhugamenn hvattir til þess að mæta á skákstað og fylgjast með spennandi skákum. Þeir sem eiga ekki heimangengt geta fylgst með beinum útsendingum frá efstu borðum á netinu.

Skákir mótsins, úrslit og stöðu má finna á Chess-Results.