Spennandi önnur umferð í U-2000 mótinuIMG_8792

Harðfiskur og símagambítur var meðal þess sem kom við sögu í rafmagnaðri annari umferð U-2000 mótsins sem fór fram á miðvikudagskvöld. Dýrðarinnar ilmur frá veigum þeim er á boðstólum voru í Birnu-kaffi steig innum skynfæri þeirra ríflega fjörutíu skáksála sem stigu inn í Skákhöllina úr hinu dimma myrkri hins íslenska veturs.

Á fyrsta borði stýrði Haraldur Baldursson (1957) svörtu mönnunum gegn Aðalsteini Thorarensen (1714) og líkt og í fyrstu umferð virtist Haraldur sigla sigrinum nokkuð örugglega og án mikilla láta í höfn. Af fyrstu tveimur umferðunum að dæma virðist ljóst að sigurvegari mótsins í fyrra verður mjög erfiður við að eiga og klárt að keppendur þurfa að beita kænskubrögðum og jafnvel fantabrögðum til að leggja Harald.

IMG_8782

Friðgeir Hólm er refur þegar kemur að reitunum 64.

Á öðru borði virtist Jon Olav Fivelstad (1918) eiga alla vinningsmöguleika gegn hinum beinskeytta Friðgeiri Hólm (1739) í endatafli þar sem sá Jon hafði hrók og tvö peð fyrir tvo menn. Eitthvað snérust þó vopnin í höndum hans og var Friðgeir sjálfsagt kominn með unna stöðu um tíma en svo fór að sæst var á skiptan hlut. Á þriðja borði lagði síðan hinn ungi Dawid Kolka (1907) rektorinn sjálfan, Lárus H. Bjarnason (1594).

IMG_8790

Freyja Birkisdóttir er hér í þungum þönkum.

Þó svo að fátt væri um óvænt úrslit er það engan vegin til marks um spennustigið sem var í loftinu og til marks um það hve jafnar og spennandi viðureignirnar voru má nefna það að klukkan ellefu um kvöldið var meira en þriðjungi skákanna enn ólokið. Síðasti bardaganum lauk ekki fyrr en aðfaranótt fimmtudagsins og virtist öðrum keppandanum umhugað um hag skákstjórans því hann kallaði til hans hátt og snjallt hvort hann væri ekki orðinn þreyttur. Tók mótherjinn þessu með jafnaðargeði en benti þó kurteisislega á að hann ætti einungis 30 sekúndur eftir á klukkunni!

IMG_8795

Frændurnir og félagarnir Stephan Briem og Örn Alexandersson heyja orrustu.

Í einni viðureign varð keppandi fyrir því óláni að sími hans hringdi og því lítið annað að gera en að dæma tap vegna hins svokallaða símagambíts. Er því rétt að ítreka þau tilmæli til keppenda að skilja einfaldlega allan slíkan rafeindabúnað eftir þegar taflmennska í mótum er annarsvegar.

Þegar skammt var liðið á umferð kvöldsins gaus upp hin sérkennilegasta lykt sem virtist engan veginn geta komið frá hinu rómaða Birnu-kaffi. Fóru fljótlega að berast ábendingar um þetta og við nánari eftirgrennslan kom í ljós að einn keppenda var einfaldlega að gæða sér á dýrindis harðfiski sem er auðvitað allra meina bót. Brást hlutaðeigandi hinn besti við beiðni um að fara rólega í fiskinn og hafa pokann eins mikið lokaðan og mögulegt væri.

IMG_8785

Davíð Stefánsson stýrir einbeittur svörtu mönnunum.

Það liggur fyrir að í afar athyglisvert og spennandi mót stefnir en þriðja umferð verður tefld næstkomandi miðvikudagskvöld og að venju verða tímavélarnar ræstar klukkan 19.30. Mætast þá m.a. Haraldur og Hilmar Þorsteinsson (1800), Dawid og Veronika Steinunn Magnúsdóttir (1778), sem og Héðinn Briem (1588) og Kjartan Ingvarsson.

Skákir mótsins eru aðgengilegar hér að neðan en það er sem fyrr Daði Ómarsson sem slær þær inn hratt og örugglega. Þá má einnig kíkja á myndir frá mótinu og vert er að minna á að Birnu-kafffi verður opið þar sem í boði er kaffi og aðrar ljúffengar veitingar fyrir keppendur og áhorfendur.