Skákgleði á Hátíð hafsins



Odinn1

Það var líflegt um að litast við Grandagarð í dag er fólk naut veðurblíðunnar á Hátíð hafsins. Taflfélag Reykjavíkur tók þátt í herlegheitunum og bauð gestum varðskipsins Óðins að grípa í tafl. Fjölmargir þekktust boðið; karlar og konur, piltar og stúlkur, ömmur og afar, feður og mæður, leikskólabörn, kennarar, iðnaðarmenn, skáld, unglingar, fræðimenn, forstjórar, ferðamenn, og þannig mætti lengi telja.

image

Eitt sinn var mikið teflt um borð í Óðni. Svo kom sjónvarpið til sögunnar. Fyrrum áhafnarmeðlimir sem áttu leið hjá höfðu á orði að gaman væri að sjá fólk tefla á nýjan leik í Messanum.

image

Það er á stundum sem þessum sem hugurinn reikar til kaffistofa landsins, til heimila, til fólks sem hefur gaman af að grípa í tafl sér til dægradvalar en ekki til að svala keppnisþörf. Hin íslenska skákhreyfing þarf að standa þessum hópi opin, ekki síður en keppnisskákmönnum.

image

Þetta var fólkið sem fyllti Messann í dag. Fólk sem tefldi með gleðina að vopni frekar en kappsemi. Fólk sem naut félagsskaparins ekki síður en glímunnar við skákgyðjuna.

image

Taflfélag Reykjavíkur vill koma á framfæri þökkum til Sjóminjasafnsins í Reykjavík fyrir samstarfið. Vonandi verður leikurinn endurtekinn að ári.