Skákæfingar Taflfélags Reykjavíkur hefjast 7.janúar



Skákæfingar Taflfélags Reykjavíkur hefjast á ný laugardaginn 7.janúar og standa til laugardagsins 13.maí þegar önninni lýkur með hinni árlegu Vorhátíð. Æfingarnar eru fjölbreyttar sem fyrr og hannaðar til þess að mæta þörfum sem flestra áhugasamra skákbarna. Á æfingum félagsins munu börnin fá markvissa kennslu og persónulega leiðsögn sem mun nýtast þeim sem grunnur að framförum í skáklistinni.

Æfingagjöld fyrir vormisseri 2017 haldast óbreytt frá því sem var á haustönn. Æfingagjaldið er 8.000kr fyrir æfingar einu sinni í viku og 14.000kr fyrir æfingar tvisvar í viku. Veittur verður systkinaafsláttur í formi 50% afsláttar.

Mikilvægt er að skrá þátttakendur á æfingarnar með því að fylla út skráningarform sem finna má á vef félagsins. Öllum er þó frjálst að prófa eina æfingu án skuldbindingar. Foreldrar geta nýtt sér Frístundakort Reykjavíkurborgar ef börnin/unglingarnar eru með lögheimili í Reykjavík.

Allar nánari upplýsingar sem og leiðbeiningar um hvaða æfingar henta hverjum og einum veita skákþjálfarar félagsins.

IMG_8942

Á vorönn 2017 er boðið upp á sjö mismunandi skákæfingar:

 

Byrjendaæfing I: Lau kl.10:40-11:00 (frítt)IMG_4475

Á þessari æfingu verður eingöngu manngangurinn kenndur. Þessi æfing er hugsuð fyrir börn á grunnskólaaldri og elstu börn leikskóla, af báðum kynjum, sem vilja læra mannganginn frá grunni eða vilja læra tiltekna þætti manngangsins betur. Börnin munu læra að hreyfa alla mennina auk þess sem þau læra reglur sem gilda um hrókeringu og framhjáhlaup. Þegar barn hefur náð góðum tökum á mannganginum að mati skákþjálfara þá er það tilbúið að taka næsta skref sem er Byrjendaæfing II. Umsjón með æfingunum hefur Torfi Leósson (sími: 6973974).

Byrjendaæfing II: Lau kl.11:15-12:15 (8.000kr)IMG_4470

Þessi æfing er hugsuð fyrir börn á grunnskólaaldri og elstu börn leikskóla, af báðum kynjum, sem kunna allan mannganginn og þyrstir í að læra meira og ná betri tökum á skáklistinni. Á æfingunni tefla börnin hvert við annað í bland við létta kennslu. Börnin læra almennar reglur sem gilda á skákmótum og þau venjast því að tefla með klukku. Auk þess munu börnin læra grunnatriði á borð við liðsskipan og einföld mát. Umsjón með æfingunum hefur Torfi Leósson (sími: 6973974).

 

Stúlknaæfing: Lau kl.12:30-13:45 (8.000kr)IMG_4491

Þessi æfing hefur fest sig í sessi sem ein fjölmennasta skákæfing TR. Fyrirkomulag æfingarinnar er óbreytt frá því sem verið hefur síðustu misseri og eru allar stúlkur á grunnskólaaldri velkomnar að slást í hópinn. Á skákæfingunum er lögð áhersla á ýmis taktísk atriði og mátstöður í miðtafli og endatafli. Lögð er áhersla á að stelpurnar þrói með sér skilning á stöðuuppbyggingu, svo sem liðskipan í byrjun, úrvinnslu í miðtafli og læri að ljúka skákinni með máti. Tímarnir innihalda sitthvað af öllu þessu: innlögn og umræður, skákþrautir og taflmennsku, sköpun og gleði. Umsjón með æfingunum hefur Sigurlaug R. Friðþjófsdóttir (sími: 8626290).

 

Laugardagsæfing: Lau kl.14:00-15:55 (frítt)IMG_4508

Laugardagsæfingar TR hafa verið flaggskip félagsins undanfarna áratugi. Á þessum æfingum er sett upp æfingamót og tefla börnin allan tímann. Æfingin er fyrir bæði stráka og stelpur á grunnskólaaldri og eru börn frá öðrum taflfélögum velkomin á þessa æfingu. Æfingin er án endurgjalds. Umsjón með æfingunum hefur Veronika Steinunn Magnúsdóttir (sími: 6981561).

 

Framhaldsæfing I: Mið kl.17:00-18:00 (8.000kr)IMG_4471

Framhaldsæfing I er ný æfing sem ætlað er að koma til móts við þau skákbörn TR, af báðum kynjum, sem hafa mikinn áhuga á að taka framförum í skáklistinni. Þessar æfingar eru hugsaðar fyrir börn sem hafa reynslu af að tefla með klukku og kunna einföld mát líkt og að máta með kóngi og hrók gegn stökum kóngi. Á þessum æfingum er mikil áhersla lögð á grunnatriði endatafla. Umsjón með æfingunum hefur Veronika Steinunn Magnúsdóttir (sími: 6981561).

 

Framhaldsæfing II: Sun kl.10:45-12:15 (8.000kr)IMG_4522

Framhaldsæfing II (áður Afreksæfing B) er ætlað að koma til móts við þau skákbörn, af báðum kynjum, sem hafa mikinn áhuga á að taka framförum í skáklistinni. Þessar æfingar eru hugsaðar fyrir þau börn sem þekkja grunnatriði endatafla og eru þegar byrjuð að tefla á kappskákmótum. Umsjón með æfingunum hefur Kjartan Maack (sími: 8620099).

 

Afreksæfing: Lau kl.16:05-17:35 & Fim kl.16:00-17:30 (8.000 – 14.000kr)IMG_4251

Afreksæfing verður með hefðbundnu sniði frá því sem verið hefur og er æfingin hugsuð fyrir stigahæstu skákbörn og unglinga TR af báðum kynjum. Á þessum æfingum er mikil áhersla lögð á byrjanafræði og krefjast æfingarnar þess að nemendur geti unnið sjálfstætt. Æft er tvisvar í viku, á fimmtudögum og laugardögum. Umsjón með æfingunum hefur Daði Ómarsson (sími: 6154273).