Sjötta umferð hér í Mysliborz 

 

 

Ekki tókst mér að klára umfjöllun mína um 5. umferð samdægurs, frekar en aðra daga, því eins og áður er slökkt á internetinu, hér um bil um leið og síðasta skák klárast.

Einu sinni sem oftar var það einn okkar manna sem var síðastur til að klára, í þessu tilfelli Matthías.

Matta tókst að vinna að lokum eftir langan “svíðing” og var það vel við hæfi því kappinn átti afmæli í gær. Þar með eru þrír liðsmenn búnir að ná hinum virðulega aldri 16 ára.

 

Um kvöldið var síðan hin margboðaða grillveisla við stöðuvatnið (“tonight we roast a pig!”) og þá komumst við að því hver bílstjórinn sem keyrði okkur frá Kostrzyn er (sá hinn sami og hafði teflt bréfskák við Samúelsson úr Kópavogi): Þetta var enginn annar er sjálfur bæjarstjóri Mysliborz.

 

Bæjarstjórinn hefur sannarlega lagt sig allan fram til að gera dvöl okkar sem ánægjulegasta. Til að mynda lét hann sækja okkur öll á hótelið og keyrði sjálfur einn af bílunum. Það tekur í sjálfu sér ekki nema 10 mínútur að labba að vatninu, sem sýnir í hversu miklum metum við erum höfð hér. Reyndar spilar það inn í að bæjarstjórinn má greinilega ekkert aumt sjá og e.t.v. var honum sú tilhugsun óbærileg að Villi, sem gengur nú við staf, þyrfti að haltra alla þessa leið.

Veislan sjálf heppnaðist mjög vel og ég mætti með dós af soja-pylsum svo ég yrði ekki alveg út undan.

 

Eins og alltaf þegar Slavar koma saman var byrjað að syngja er leið á veisluna. Íslendingarnir svöruðu fyrir sig: Ómar, pabbi Daða, sýndi snilldartakta með gítarinn (sem þó vantaði einn streng) og íslenski hópurinn rumdi sig í gegnum “Á Sprengisandi”. Enn meiri athygli vakti það hjá hinum keppendunum þegar við tókum rússneskt þjóðlag sem við þekkjum sem “Vertu til er vorið kallar á þig”. Slavarnir komu að borðinu okkar og ég heyrði þá pískra saman um “Kalinka” – e.t.v. er það heiti lagsins á frummálinu?

 

Í morgun var síðan boðið upp á siglingu á stöðuvatninu, ég dottaði nú mest allan tímann, en það var a.m.k. gaman að sjá hvað vatnið er stórt.

 

Villi var svo endanlega útskrifaður af heilsugæslunni í dag – eða við höldum það. Læknirinn sem talar ensku var ekki við, en við hringdum heim til hans og einhvern veginn gekk þetta allt í gegn. Hinsvegar verða saumarnir ekki teknir úr strax – við ætlum að reyna að gera það í Berlín. Ekki er hægt að segja að sjúkraþjónustan sé dýr; samtals kostnaður með sýklalyfjum, tveimur heimsóknum og heimsókn á bráðavaktina var 200 ZLOTY eða minna en 5000 kr.

 

Nú er 6. umferð nýhafin og piltarnir fengu allir hvítt.

Daði hefur hvítt á móti SM Leonid Voloshin og er í beinni útsendingu.

Matti hefur hvítt á móti Grzegorz Stala og er einnig í beinni.

Síðan hafa Villi, Einar og Aron hvítt á heimamenn.

 

Torfi Leósson