Siguringi og Björgvin efstir á Skákmóti öðlinga



20170315_193912

Skákkennarinn knái frá suðurnesjunum, Siguringi Sigurjónsson (2021), skaust upp á topp Öðlingamótsins með góðum sigri á Ögmundi Kristinssyni (2015) í fjórðu umferð sem fram fór síðastliðið miðvikudagskvöld. Siguringi er því efstur með 3,5 vinning ásamt Björgvini Víglundssyni (2185) sem gerði jafntefli við Fide-meistarann Ingvar Þór Jóhannesson (2377) í tíðindalítilli skák.

Þéttur hópur sex keppenda með 3 vinninga hver kemur næstur og því ljóst að það stefnir í afar spennandi seinni hluta móts.

20170315_202657

Sannkölluð risaviðureign fór fram á öðru borði þar sem tveir svakalegir reynsluboltar mættust. Er þar átt við Gunnar K. Gunnarsson (2115) sem stýrði hvítu mönnunum gegn Þór Valtýssyni (1962). Reyndust þeir kappar nýta keppnisreynsluna til að spara kraftana fyrir komandi átök því þeir sömdu snemma um skiptan hlut og virtust sáttir við sín hlutskipti.

Af öðrum úrslitum og nokkuð óvæntum má nefna að Óskar Long Einarsson (1671) sigraði Halldór Pálsson (2025) og slíkt hið sama gerði Hjálmar Sigurvaldason (1464) gegn Þorvaldi Siggasyni (1773) en hinn eitilharði Vinjarliði Hjálmar hefur nú landað tveimur sigrum í röð, báðum gegn talsvert stigahærri andstæðingum.

20170315_194021

Fimmta umferð fer fram næstkomandi miðvikudagskvöld og þá mætast efstu menn í innbyrðisviðureign þar sem Siguringi stýrir hvítu mönnunum gegn svörtum her Björgvins. Þá mætir Ingvar Þór Gunnari og stórmeistari kvenna, Lenka Ptacnikova (2210) etur kappi við Óskar Long.

Klukkur verða ræstar á slaginu 19.30 og eru áhorfendur hvattir til að mæta og berja snilldina augum. Kaffitankarnir verða á fullu – alltaf heitt á könnunni!