Róbert og Aron efstir í Bikarsyrpunni



bikarsyrpa_15-16 (11)

Að loknum þremur umferðum í fyrsta mótinu af sex í Bikarsyrpu TR leiða Róbert Luu (1490) og Aron Þór Mai (1502) en báðir hafa þeir lagt alla andstæðinga sína.  Í þriðju umferðinni vann Róbert Adam Omarsson (1156) en Aron hafði betur gegn Jóni Þór Lemery (1275).

bikarsyrpa_15-16 (12)

Björn Magnússon (1000) og Guðmundur Agnar Bragason (1368) koma næstir með 2,5 vinning en síðan fylgir löng halarófa keppenda sem hafa 2 vinninga.  Forysta Róberts og Arons þarf ekki að koma á óvart enda stigahæstu keppendur móstins sem báðir hafa verið á mikilli siglingu að undanförnu.  Munu þeir tveir leiða saman hesta sína í fjórðu og næstsíðustu umferð og líklegt verður að teljast að þar fari ein af úrslitaviðureignum mótsins.

bikarsyrpa_15-16 (13)

Þátttaka í mótinu er góð þar sem aldurs- og styrkleikabil eru breið og standa öll börnin sig með miklum sóma en sérstaklega er eftirtektarvert hversu fagmannlega þau bera sig að við skákborðin.  Fjórða umferð hefst á morgun sunnudag kl. 10.30 og síðan verður blásið til leiks í fimmtu og síðustu umferðinni þegar tímamaskínan í TR höllinni dúndrar út tveimur slögum.

Sjáið myndir hér að neðan.