Rimaskóli sigursæll á Jólaskákmóti TR og SFS



Um nýliðna helgi leiddu Taflfélag Reykjavíkur og Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar saman riddara sína og blésu til hins árlega Jólaskákmóts grunnskóla borgarinnar. Hátt í 150 börn settust að tafli í 33 skáksveitum og sköpuðu börnin einstakt andrúmsloft í félagsheimili TR sem einkenndist af skemmtilegri blöndu leikgleði og keppnishörku.

Yngri flokkur reið á vaðið á sunnudagsmorgni klukkan 10:30 er Suður-riðill 1.-7.bekkjar var tefldur. Þar fór fremst í flokki sigursveit Ölduselsskóla frá því í fyrra en skáksveitin sú er bæði reynslumikil og römm að afli. Einungis ein stúlknasveit var mætt til leiks og var það hin efnilega sveit Háteigsskóla, en stúlkurnar í sveitinni hafa verið einkar duglegar að sækja skákæfingar hjá Taflfélagi Reykjavíkur undanfarin misseri. Svo fór að Ölduselsskóli vann öruggan sigur í Suður-riðli og hlaut sveitin 21 vinning af 24 mögulegum. Baráttan um 2.sætið var hnífjöfn allt fram í síðustu umferð. Að lokum hreppti Breiðholtsskóli 2.sætið með 14,5 vinning, aðeins hálfum vinning meira en Háteigsskóli sem endaði í 3.sæti. Það voru því Ölduselsskóli og Breiðholtsskóli sem tryggðu sér þátttökurétt í úrslitakeppni mótsins. Stúlknasveit Háteigsskóla fékk 10,5 vinning í 6.sæti og komst áfram í úrslitakeppni stúlknasveita.

IMG_4585

Stúlknasveit Háteigsskóla teflir gegn Háaleitisskóla.

Norður-riðill yngri flokks hófst klukkan 14 sama dag. Hvorki fleiri né færri en 19 skáksveitir voru mættar til leiks og því var þröngt á þingi í félagsheimili TR þennan seinni part sunnudags. Svo mikill var atgangurinn þegar foreldrar og liðsstjórar streymdu að með keppendur að um tíma leit bílastæðið út eins og færeyskur harmonikusamanstoyti. En betur fór en á horfðist og komust allir bílar klakklaust í bílastæði og keppendur á keppnisstað. Skákrisinn úr Grafarvogi, Rimaskóli, þótti sigurstranglegur í þessum riðli en Ingunnarskóli kaus þó að gefa ekkert eftir í toppbaráttunni og fylgdi Rimaskóla eftir sem skugginn allt mótið. Að lokum munaði aðeins einum vinning á skólunum tveimur. Rimaskóli vann riðilinn og Ingunnarskóli lenti í 2.sæti, og öðluðust skólarnir tveir því keppnisrétt í úrslitakeppninni. B-sveit Rimaskóla hreppti loks 3.sætið. Rimaskóli lét ekki þar við sitja því stúlknasveit skólans varð hlutskörpust í stúlknaflokki og hlaut sveitin 11 vinninga. Stúlknasveit Landakotsskóla kom í humátt á eftir með 10,5 vinning. Í 3.sæti varð sveit Árbæjarskóla með 9,5 vinning. Þar sem aðeins ein stúlknasveit var í fyrri riðli mótsins þá komust þrjár efstu stúlknasveitir Norður-riðils áfram í úrslitakeppnina.

20161128_194724

Ölduselsskóli vann annað árið í röð í yngri flokki.

Úrslitakeppni yngri flokks var stórskemmtileg. Ölduselsskóli gaf ekkert eftir og vann allar sínar viðureignir utan eina sem var jafntefli gegn Rimaskóla í síðustu umferð. Ölduselsskóli vann sannfærandi sigur með 18 vinninga í 24 skákum. Rimaskóli og Ingunnarskóli háðu mikla baráttu um 2.sætið, líkt og í riðlakeppninni deginum áður, og náði sú barátta hámarki í 4.umferð er Ingunnarskóli lagði Rimaskóla 2,5-1,5. Rimaskóli spýtti þá í lófana og tryggði sér 2.sætið með jafntefli gegn sigursveit Ölduselsskóla. Rimaskóli fékk 14,5 vinning og Ingunnarskóli hlaut 13 vinninga í 3.sæti. Breiðholtsskóli rak lestina með 2,5 vinning en getur engu að síður borið höfuðið hátt því sveitin kom öllum á óvart með því að tryggja sér sæti í úrslitum í sínu fyrsta móti.

20161128_194120

Sigursveit Rimaskóla í stúlknaflokki tefldi í fallegum jólapeysum.

Úrslitakeppni stúlknaflokks hjá 1.-7.bekk var æsispennandi og réðust úrslit ekki fyrr en í síðustu skák síðustu umferðar. Rimaskóli og Háteigsskóli glímdu um efsta sætið og virtist Rimaskóli hafa pálmann í höndunum eftir sigur á helsta keppinaut sínum í 4.umferð, 3-1. Háteigsskóli lét þó ekki deigan síga og vann síðustu tvær viðureignir sínar 4-0. Rimaskóli lenti þá í klóm hinnar efnilegu skáksveitar Landakotsskóla. Í stöðunni 2-1 fyrir Rimaskóla fór af stað ævintýralega atburðarás á 1.borði þar sem Rimaskóli þurfti jafntefli til að tryggja sér sigur í mótinu. Eftir mikinn barning þar sem skákin skipti um eiganda í nokkur skipti -og fjölmargir áhorfendur tóku ítrekuð andköf- þá þráléku stúlkurnar og Rimaskóli hrósaði sigri í mótinu. Rimaskólastúlkur fengu 19,5 vinning í efsta sæti og Háteigsskóli hlaut 19 vinninga í 2.sæti. Landakotsstúlkur enduðu í 3.sæti og Árbæjarskóli í 4.sæti.

20161128_192218

Stúlknasveit Hagaskóla hreppti 3.sætið í eldri flokki og var jafnframt eina stúlknasveitin.

Eldri flokkur (1.-8.bekkur) tefldi á sama tíma og úrslitakeppni yngri flokks fór fram. Þátttaka í eldri flokki var afar döpur að þessu sinni en aðeins 6 skáksveitir tefldu. Fyrir vikið þurftu mótshaldarar að fækka fyrirhuguðum umferðum úr sex í fimm. Laugalækjarskóli mætti með mjög sterka skáksveit líkt og árið á undan er skólinn vann með fullu húsi. Laugalækjarskóli endurtók leikinn og vann allar 20 skákir sínar. Rimaskóli hreppti 2.sætið með 14 vinninga. Stúlknasveit Hagaskóla –eina stúlknasveit eldri flokks- gerði sér svo lítið fyrir og fékk 8 vinninga sem dugði í 3.sætið.

20161128_192040

Laugalækjarskóli vann eldri flokk annað árið í röð með fullu húsi.

Sé litið til mótsins í heild þá sést að Rimaskóli stendur öðrum skólum Reykjavíkur framar í skólaskák. Skólinn hreppti alls fimm verðlaun; 2 gull, 2 silfur og 1 brons. Aukinheldur sendi skólinn 5 skáksveitir í mótið, flestar allra skóla.

Nánari upplýsingar um úrslit og lokastöðu má nálgast á chess-results.

Taflfélag Reykjavíkur vill koma á framfæri þökkum til Skóla- og frístundasviðs fyrir ánægjulegt samstarf sem enn eitt árið skapar vettvang fyrir börn í grunnskólum Reykjavíkur til þess að koma saman og eiga góða taflstund saman.