Rimaskóli Reykjavíkurmeistari grunnskólasveita



Það var líf og fjör í skákheimili Taflfélags Reykjavíkur mánudaginn 9.febrúar er Reykjavíkurmót grunnskólasveita var haldið með pompi og prakt. Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar hélt mótið í samstarfi við Taflfélag Reykjavíkur og var mótið hið 37. í röðinni. Hátt í 130 vaskir sveinar og stúlkur á grunnskólaaldri reimuðu á sig skákskóna þennan mánudagseftirmiðdag og tefldu fyrir hönd skóla sinna. Tefldar voru 7 umferðir með 10 mínútna umhugsunartíma á mann. Liðsstjórar skólanna höfðu í nógu að snúast og foreldrar og aðrir ættingjar fylgdust af ákafa með framgöngu sinna barna.

 

28 skáksveitir frá 16 grunnskólum tefldu í mótinu að þessu sinni og var mótið því einkar vel sótt, líkt og í fyrra. Flestar sveitanna komu frá Rimaskóla eða sex talsins. Þá tefldi Ingunnarskóli fram fjórum skáksveitum. Heildarfjöldi skáksveita var sá sami og árið áður, en þó jókst fjöldi grunnskóla sem sendu fulltrúa sína í mótið um einn, samanborið við í fyrra, sem er ánægjuefni.

 

Fyrirfram þótti Rimaskóli sigurstranglegastur í opnum flokki enda hefur skólinn orðið Reykjavíkurmeistari undanfarin tvö ár. Auk þess mætti Rimaskóli með þaulreynda skákmenn í hlutverkum liðsstjóra, þar á meðal nýkrýndan hraðskákmeistara Reykjavíkur, Dag Ragnarsson. Skáksveitir Ölduselsskóla, Laugalækjarskóla og Árbæjarskóla mættu einnig sterkar til leiks og þóttu líklegar til þess að blanda sér í baráttuna um gullið. Í stúlknaflokki tefldu fimm nokkuð jafnar skáksveitir og var búist við spennandi keppni þeirra á milli. Athygli vakti að bæði Melaskóli og Breiðholtsskóli sendu aðeins stúlknasveit til leiks, en þessar tvær stúlknasveitir hafa ávallt tekið þátt í skólaskákmótum undanfarin misseri. Þá hafa Rimaskóli og Ingunnarskóli einnig sent stúlknasveitir í þessi mót undanfarið með góðum árangri. Sveit Rimaskóla var þó líklegust til afreka að þessu sinni enda höfðu Grafarvogsstúlkur unnið mótið undanfarin fjögur ár.

 

Í opnum flokki varð fljótlega ljóst í hvað stefndi. A-sveit Rimaskóla vann fyrstu fjórar viðureignir sínar 4-0 á meðan keppinautar þeirra töpuðu skákum. A-sveit Ölduselsskóla fylgdi Rimaskóla eftir sem skugginn og mættust sveitirnar loks í 5.umferð. Þar vann Rimaskóli sannfærandi sigur og því var A-sveit Laugalækjarskóla eina sveitin sem átti raunhæfa möguleika á því að velta Rimaskóla úr sessi í 1.sæti. Þegar sveitirnar mættust í 6.umferð munaði aðeins einum vinning á sveitunum og var viðureignin æsispennandi. Svo fór að lokum að Rimaskóli vann með minnsta mun. Rimaskóla urðu svo ekki á nein mistök í síðustu umferð og sigurinn í mótinu var gulltryggður. A-sveit Rimaskóla hlaut 25 vinninga í efsta sæti –jafn marga vinninga og sigursveitin árið áður. Tapið gegn Rimaskóla í 6.umferð virtist sitja eilítið í sterkum skákmönnum Laugalækjarskóla –enda annálaðir keppnismenn sem ætluðu sér ekkert annað en sigur í mótinu- því þeir steinlágu fyrir Ölduselsskóla í síðustu umferð, 3-1. Þar með skaust hin efnilega A-sveit Ölduselsskóla í 2.sætið með 22 vinninga og var hún vel að því komin eftir góðan endasprett og heilsteypta taflmennsku í úrslitaviðureigninni um silfrið í síðustu umferð. A-sveit Laugalækjarskóla sat hins vegar eftir í 3.sæti með 20,5 vinning.

 

Í stúlknaflokki var mikil spenna frá upphafi til enda því úrslit réðust ekki fyrr en að lokinni síðustu skák. Fyrir síðustu umferðina voru stúlknasveitir Rimaskóla og Melaskóla efstar og jafnar í 1.sæti með 11 vinninga. Minnti þessi staða óneitanlega á stöðuna fyrir síðustu umferð sama móts í fyrra þegar þessir sömu skólar börðust um efsta sætið. Fast á hæla þeirra voru stúlknasveitir Breiðholtsskóla og Ingunnarskóla með 10 vinninga. Svo fór að lokum að Melaskóli vann sína viðureign með minnsta mun en Rimaskóli náði aðeins einu jafntefli í sinni viðureign. Á sama tíma unnu stúlknasveitir Ingunnarskóla og Norðlingaskóla stóran sigur og Breiðholtsskóli vann sína viðureign með minnsta mun. Melaskóla tókst því hið ómögulega, að velta Rimaskóla úr sessi sem sterkasta stúlknasveit Reykjavíkur. Melaskólastúlkur hlutu 13,5 vinning en stúlknasveit Ingunnarskóla fékk 13 vinninga sem dugði þeim í 2.sætið. Í 3.sæti varð Breiðholtsskóli með 12,5 vinning. Norðlingaskóli fékk 12 vinninga í 4.sæti og loks fékk Rimaskóli 11,5 vinning.

 

Reykjavíkurmóti grunnskólasveita í skák árið 2015 er því lokið. Það sem stendur upp úr er að Rimaskóli er Reykjavíkurmeistari grunnskólasveita annað árið í röð. Skólinn er afar vel að því kominn enda skákstarf þar á bæ gróskumikið og glæsilegt. Til marks um það er vert að geta þess að af sjö efstu skáksveitum mótsins átti Rimaskóli fjórar. Til hamingju Rimaskóli! Einnig stendur upp úr frábær frammistaða hinna glaðlyndu og samheldnu stúlkna í Melaskóla sem unnu stúlknaflokkinn eftir æsispennandi lokaumferð. Er það mjög vel af sér vikið, sérstaklega sé litið til þess að Rimaskóli hefur unnið stúlknaflokkinn undanfarin fjögur ár. Til hamingju Melaskóli!

 

Mótið í heild sinni heppnaðist afar vel og gekk framkvæmd þess eins og í sögu. Taflfélag Reykjavíkur vill koma á framfæri þökkum til allra keppenda, liðsstjóra, foreldra og annarra sem áttu leið í skákheimilið og áttu þátt í því að skapa hið magnaða og skemmtilega andrúmsloft sem ávallt ríkir á þessu móti. Sérstakar þakkir fær Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar fyrir ánægjulegt og árangursríkt samstarf. Einnig fá Skákakademía Reykjavíkur sem og Skákskóli Íslands góðar þakkir fyrir þeirra aðkomu og aðstoð. Hlökkum til að sjá alla –og fleiri til- á næsta ári!

  • Myndir frá mótinu

Lokastaðan

1 A Rimaskóli, 25       
2 A Ölduselsskóli, 22
3 A Laugalækjarskóli, 20.5
4-5 A Árbæjarskóli, 18
B Rimaskóli, 18
6 C Rimaskóli, 17
7 D Rimaskóli, 16
8-11 A Hagaskóli, 15
A Ingunnarskóli, 15
A Háteigsskóli, 15
B Ingunnarskóli, 15
12-13 A Norðlingaskóli, 14
A Langholtsskóli, 14
14 S Melaskóli, 13.5
15-17 B Ölduselsskóli, 13
S Ingunnarskóli, 13
A Foldaskóli, 13
18-21 S Breiðholtsskóli, 12.5
A Kelduskóli, 12.5
E Rimaskóli, 12.5
B Árbæjarskóli, 12.5
22 S Norðlingaskóli, 12
23-24 C Ingunnarskóli, 11.5
S Rimaskóli, 11.5
25 A Austurbæjarskóli, 9
26 B Háteigsskóli, 8.5
27 A Háaleitisskóli, 7.5
28 A Ártúnsskóli, 5