Reykjavíkurmótinu lokið – góður árangur TR-inga



Alþjóðlega MP Reykjavíkurskákmótinu lauk í dag þegar níunda og síðasta umferðin var tefld við glæsilegar aðstæður í Ráðhúsi Reykjavíkur.  Fjórir skákmenn enduðu efstir og jafnir með 7 vinninga, þ.á.m. Hannes Hlífar Stefánsson (2574) sem sigrar því í þriðja sinn í röð á mótinu og í fimmta skiptið alls.  Glæsilegur árangur hjá Hannesi sem nýverið gekk úr röðum Taflfélags Reykjavíkur.  Ásamt Hannesi deildu 1.-4. sætinu Ivan Sokolov (2649), Yuriy Kuzubov (2634) og Abhijeet Gupta (2577).  Fimm skákmenn komu næstir með 6,5 vinning og sjö þar á eftir með 6 vinninga, þ.á.m. Henrik Danielsen (2495).

Alls tóku 104 skákmenn og skákkonur þátt í mótinu og voru 11 skákmenn úr Taflfélagi Reykjavíkur meðal þeirra.  Það verður ekki annað sagt en að árangur TR-inganna sé glæsilegur því samanlagt innbyrtu þeir 121 elo stig!  Hér að neðan má sjá árangur félagsmanna T.R.:

Rk.   Name FED Rtg Pts.  Rp rtg+/-
28 IM Kjartansson Gudmundur  ISL 2391 5,5 2386 4,8
42   Omarsson Dadi  ISL 2131 5 2313 28
66   Johannsson Orn Leo  ISL 1710 4 2134 47
71   Fridthjofsdottir Sigurl  Regin  ISL 1809 4 2063 22
79   Benediktsson Frimann  ISL 1930 3,5 2003 6,9
82   Fivelstad Jon Olav  NOR 1800 3,5 1926  
90   Antonsson Atli  ISL 1716 3 1889 12
95   Brynjarsson Eirikur Orn  ISL 1653 3 1764 13
98   Andrason Pall  ISL 1587 2,5 1770 22
100   Leifsson Thorsteinn  ISL 1821 2 1685 -31
101   Sigurdsson Birkir Karl  ISL 1446 2 1617 -3,8

Ekki kemur á óvart að tveir sterkustu skákmennirnir, Guðmundur og Daði, skuli vera efstir í þessum hóp en árangur Daða er sérlega glæsilegur þar sem hann hækkar um 28 elo stig og teflir með styrkleika á við 2313 stiga skákmann.  Að öðrum ólöstuðum stendur þó árangur hins unga og efnilega, Arnar Leós, upp úr.  Hann hækkar um heil 47 elo stig og er með árangur sem nemur rúmlega 400 stigum meira en hann er með í dag!  Glæsilegt hjá Erni sem er greinilega að springa út sem skákmaður.

Ánægjulegt er að sjá góðan árangur Sigurlaugar formanns en gengi hennar hefur verið nokkuð brösugt undanfarin misseri.  Hún lagði meðal annarra eiginmann sinn, Jóhann H. Ragnarsson, en ekki hefur frést af fjölskyldufundi í kjölfarið.  Hinir ungu og efnilegu, Eiríkur Örn og Páll, stóðu sig vel og halda áfram að bæta stigum í sarpinn eftir mikla siglingu að undanförnu.  Þorsteinn er sá eini sem hægt er að tala um að hafi átt slæmt mót en hann getur betur og kemur vonandi sterkur til leiks á næsta mót.  Birikir Karl tefldi einnig af meiri styrkleika en stigin hans segja til um en lækkar engu að síður um nokkur stig.  Mikilvæg reynsla sem Birkir hefur nælt sér í þarna og í raun er aðeins tímaspursmál hvenær hástökk hans hefst.

Stjórn T.R. óskar liðsmönnum sínum til hamingju með þennan góða árangur og vonast til að fá að njóta krafta þeirra um næstu helgi þegar seinni hluti Íslandsmóts skákfélaga fer fram.