Páskaeggjasyrpan: Bjartur og Batel sigurvegarar móts nr.2TRBanner2017_simple

Páskaeggjasyrpa Nóa Síríus og Taflfélags Reykjavíkur hélt áfram um síðastliðna helgi og var skákhöllin sem fyrr full af kátum og súkkulaðiþyrstum börnum. Hafi fyrsta mótið þótt spennandi þá var þetta mót æsispennandi! Í yngri flokki urðu þrír keppendur efstir og jafnir en í eldri flokki urðu fjórir keppendur jafnir í 2.sæti.

Sigurvegari yngri flokks í fyrsta mótinu, Einar Tryggvi Petersen, hélt uppteknum hætti til að byrja með og vann hvern andstæðing sinn á fætur öðrum. Í sjöttu og næstsíðustu umferð kom þó loks að því að hann tapaði skák er Anna Katarina Thoroddsen lagði Einar Tryggva með svörtu mönnunum. Einar Tryggvi lét það ekki slá sig út af laginu heldur vann í síðustu umferð og lauk því tafli með 6 vinninga í skákunum 7. Sama árangri náði Anna Katarina sem vann sex skákir en tapaði einni. Bjartur Þórisson tefldi einnig mjög vel og vann fyrstu fjórar skákir sínar. Í 5.umferð tapaði hann fyrir Einari Tryggva en sú tapskák herti hann einungis því Bjartur vann síðustu tvær skákirnar og nældi sér því einnig í 6 vinninga. Eftir stigaútreikning varð ljóst að Bjartur hafði orðið hlutskarpastur, Einar Tryggvi hreppti 2.sætið og Anna Katarina það þriðja. Þeir Ólafur Fannar Pétursson og Daníel Davíðsson komu næstir með 5 vinninga í 4.-5.sæti. Anna Katarina varð því efst stúlkna, en næstar henni voru Soffía Berndsen og Bergþóra Helga Gunnarsdóttir með 4 vinninga.

received_277917372648341

Verðlaunahafar í yngri flokki: Anna Katarina, Bjartur og Einar Tryggvi.

Í eldri flokki varð Batel Goitom Haile í 1.sæti með 6 vinninga. Batel vann fyrstu sex skákir sínar en tapaði í síðustu umferð fyrir Frey Grímssyni. Það kom þó ekki að sök fyrir Batel því hennar helsti keppinautur í mótinu, Gunnar Erik Guðmundsson, tapaði einnig í síðustu umferð, en með sigri hefði hann náð Batel að vinningum. Gunnar Erik vann fimm skákir og tryggði sér 2.sætið í mótinu eftir stigaútreikning. Freyr Grímsson nældi sér einnig í 5 vinninga og bronsverðlaun. Þeir Árni Ólafsson og Gabríel Sær Bjarnþórsson luku jafnframt tafli með 5 vinninga en urðu eilítið lægri á stigum. Batel varð hlutskörpust stúlkna en næstar henni voru Ragna María Sverrisdóttir og Iðunn Helgadóttir með 4 vinninga.

received_277917382648340

Verðlaunahafar eldri flokks: Gunnar Erik, Freyr og Batel.

Happdrættið var á sínum stað og sá sem hreppti páskaegg númer 6 að þessu sinni var Ingvar Wu Skarphéðinsson. Ingvar stóð sig jafnframt vel í mótinu og fékk 4 vinninga í 6.sæti eldri flokks.

Keppnin um bestan samanlagðan árangur er æsispennandi. Í yngri flokki er Einar Tryggvi efstur með 13 vinninga, Bjartur er næstur með 11,5 vinning og Anna Katarina er þriðja með 11 vinninga. Í eldri flokki er Batel efst með 12 vinninga, Gunnar Erik er í 2.sæti með 10 vinninga og Árni Ólafsson er þriðji með 9,5 vinning.

Þriðja og síðasta mót Páskaeggjasyrpunnar fer fram næstkomandi sunnudag og hefst það klukkan 13. Skráningarformið má nálgast hér fyrir neðan eða í gula kassanum á skak.is.

Taflfélag Reykjavíkur þakkar öllum þeim börnum sem lögðu leið sína í Faxafenið og gerðu Páskaeggjaspyrpuna að þeirri skákveislu sem raunin varð. Sjáumst næsta sunnudag!

 

Nánari upplýsingar um mótin: Chess-results

Skráning í síðasta mót Páskaeggjasyrpunnar: Skráningarform