Óvænt úrslit í fyrstu umferð ÖðlingamótsinsFjölmennt Skákmót öðlinga hófst í gærkvöldi í húsnæði Taflfélags Reykjavíkur þegar formaður félagsins, Björn Jónsson, lék fyrsta leiknum í viðureign núverandi Öðlingameistara, Þorvarðar Fannars Ólafssonar, og Sigurlaugar R. Friðþjófsdóttur.  Alls taka 35 keppendur þátt í mótinu og er Þorvarður þeirra stigahæstur með 2254 Elo stig en næstur í röðinni með 2101 stig er alþjóðlegi meistarinn Sævar Bjarnason.  Ögmundur Kristinsson er svo skammt undan með 2044 stig.  Öðlingamótið hefur nú verið haldið í ríflega 20 ár en það er Ólafur S. Ásgrímsson sem hefur átt veg og vanda að mótinu frá upphafi.

 

Það má með sanni segja að úrslitin á fyrsta borði hafi verið óvænt því Sigurlaug gerði sér lítið fyrir og lagði Þorvarð með svörtu mönnunum en stigamunur á milli TR félaganna tveggja er rúmlega 500 stig.  Þá vann hinn eitilharði Björgvin Kristbergsson afar góðan sigur, einnig með svörtu, á Grími Grímssyni en þar munar hvorki meira né minna en 600 stigum.  Önnur úrslit voru eftir bókinni góðu ef frá er skilið jafntefli Kristjáns Halldórssonar og Ragnars Árnasonar.

Önnur umferð fer fram næstkomandi miðvikudagskvöld en þá mætast m.a. Sævar og Ólafur Gísli Jónsson, Einar Valdimarsson og Ögmundur sem og Guðmundur Aronsson og Sigurður Kristjánsson.  Taflmennskan hefst kl. 19.30 og eru áhorfendur velkomnir.

  • Úrslit, staða og pörun
  • Myndir
  • Mótstöflur
  • Öðlingameistarar