Öruggur sigur Kristjáns Dags á fyrsta móti Bikarsyrpunnar



Kampakátir verðlaunahafar!

Kampakátir verðlaunahafar!

Kristján Dagur Jónsson kom, sá og sigraði á fyrsta móti Bikarsyrpu TR þennan veturinn. Sögulegur sigur í meira lagi hjá hinum ötula Kristjáni sem gerði sér lítið fyrir og lagði alla sjö andstæðinga sína og er því fyrstur allra til að vinna með fullu húsi frá upphafi Bikarsyrpunnar sem nú telur 21 mót en syrpan hóf göngu sína fyrir sléttum fjórum árum. Fyrir þennan glæsilega árangur hækkar Kristján Dagur um hvorki meira né minna en 106 Elo-stig en til marks um áhuga og eljusemi kappans er gaman að geta þess að hann hefur tekið þátt í 19 af 21 móti syrpunnar!

Hörð barátta í Bikarsyrpunni.

Hörð barátta í Bikarsyrpunni.

Góður endasprettur Benedikts Þórissonar á lokadeginum tryggði honum annað sætið með 5,5 vinning en jafnir í 3.-5. sæti með 5 vinninga voru Örn Alexandersson, Adam Omarsson og Gestur Andri Brodmann þar sem Örn hlaut bronsið á mótsstigum. Efstar stúlkna voru Soffía Berndsen og Iðunn Helgadóttir en báðar hlutu þær 4 vinninga þar sem Soffía var sjónarmun ofar á mótsstigum og hlaut því stúlknaverðlaunin að þessu sinni. Ánægjulegt var að sjá fimm stúlkur meðal þátttakenda sem allar stóðu sig með miklum sóma en það er von mótshaldara að sjá enn fleiri stúlkur í næstu mótum.

Örn Alexandersson og Gabríel Sær Bjarnþórsson eigast hér við.

Örn Alexandersson og Gabríel Sær Bjarnþórsson eigast hér við.

Þátttaka var með besta móti en alls voru 30 börn skráð til leiks sem er raunar með mestu þátttöku frá upphafi. Mótið gekk afar vel fyrir sig enda flestallir þátttakendurnir orðnir vel skólaðir á slíkum viðburðum og farnir að þekkja fyrirkomulag Bikarsyrpunnar. Úr varð mjög skemmtileg skákhelgi sem bauð upp á spennandi og fjörugt mót þar sem hart, en drengilega, var barist. Til marks um sigurviljann má nefna viðureign Rayan Sharifa og Gabríels Sæs Bjarnþórssonar úr þriðju umferð þar sem Gabríel reyndi hvað hann gat til að landa sigri með hrók og kóng gegn riddara og kóng Rayans. Baráttuviljinn borgaði sig því eftir 2,5 klst orrustu og 116 leiki var sigurinn í höfn!

Rafmögnuð spenna á efstu borðum.

Rafmögnuð spenna á efstu borðum.

Við í TR óskum Kristjáni Degi og öðrum verðlaunahöfum til hamingju og þökkum frábærum hópi krakka fyrir þátttökuna og forráðamönnum fyrir sína aðkomu. Næsta mót fer fram helgina 5.-7. október og vonumst við til að sjá ykkur öll aftur!

Öll úrslit má nálgast á Chess-Results.