Oliver Aron sigraði á Hraðskákmóti Taflfélags Reykjavíkur



Hradskakmot_TR_2015-1

Í dag fór fram Hraðskákmót Taflfélags Reykjavíkur í skákhöll félagsins.  Setja átti mótið klukkan tvö en beðið var til hálfþrjú eftir nokkrum keppendum sem voru að taka þátt í Íslandsmóti ungmenna í Rimaskóla um morguninn og komu svo brunandi í Fenið.

Hradskakmot_TR_2015-21

Þessir tveir hafa teflt saman nokkrar skákir í gegnum tíðina. Oliver Aron Jóhannesson og Dagur Ragnarsson

Stigahæstir keppenda voru FM hnakkarnir úr Grafarvoginum Dagur Ragnarsson (2272) og Oliver Aron Jóhannesson (2198) en þeim næstir á stigum voru feðgarnir og vöðvabunktin Jóhann Ingvason (2172) og Örn Leó Jóhannsson (2123).  Nokkrir nýbakaðir Íslandsmeistarar ungmenna komu sjóðandi heitir inn en Hilmir Freyr Heimisson (14), Bárður Örn Birkisson (15) og litla systir hans Freyja (9) voru meðal þess fríða hóps sem mætti beint í mótið úr Rimaskóla.

Hradskakmot_TR_2015-32

Guðlaug Þorsteinsdóttir sem sigraði í B flokki Haustmóts TR var mætt á hraðskákmótið.

Tefldar voru samkvæmt venju 2×7 umferðir með 5 mínútna umhugsunartíma.  Oliver Aron tók snemma forystu og sigraði í tíu fyrstu skákunum sínum.  Var hann þá kominn með þægilegt forskot sem hann hélt þrátt fyrir 1-1 jafntefli við Dag Ragnarsson og tap gegn Hilmi Frey í lokaumferðinni.  Oliver hlaut samanlagt 11 1/2 vinning í umferðunum 14 sem er glæsilegur árangur.

Hradskakmot_TR_2015-23

Hilmir Freyr var í stuði í dag og vann tvo stóra titla!

Baráttan um silfrið var mjög hörð en fyrir lokaskákirnar tvær voru þeir Hilmir Freyr, Bárður Örn og Dagur Ragnarsson jafnir í 2-4 sæti með 8 1/2 vinning.  Bárður Örn og Dagur mættust þá meðan Hilmi beið það erfiða verkefni að kljást við Oliver.  Bárður og Dagur sættust á skiptan hlut, unnu sitthvora skákina meðan Hilmir Freyr gerði sér lítið fyrir og sigraði Oliver 1 1/2 – 1.  Hann kom því annar í mark með 10 vinninga sem er frábær árangur en Hilmir er einungis 14 ára.  Annað sætið tryggði honum einnig hraðskákmeistaratitil Taflfélags Reykjavíkur 2015 en eflaust þarf að leita nokkuð langt aftur til að finna jafn ungan skákmann til að hampa þeim titli.  Dagur tók svo bronsið á stigum með 9 1/2 vinning.

Mótið var hið skemmtilegasta, ævintýralegur klukkubarningur í nokkrum skákum, mát á síðustu sekúndunum og töp með ólöglegum leikjum voru nokkur.  Mótið fór þó prúðmannlega fram og þurfti skákstjóri lítið að hafa sig í frammi. Helst var það að setja þurfti út á að menn væru að nota báðar hendur við uppskipti í tímahraki en það reynist mörgum erfitt að venja sig af því.

Hradskakmot_TR_2015-38

Pétur Jóhannesson var mættur í Fenið eftir nokkurt hlé. Hér á hann í höggi við Björgvin Kristbergsson

Nokkur skringileg atvik komu upp, t.d. tapaði séntilmaðurinn Hörður Jónasson fyrir Pétri Jóhannessyni.  Pétur skildi kónginn sinn eftir í uppnámi eitt sinn en Hörður benti honum bara á það og skákin hélt áfram.  Nokkrum leikjum síðar skildi svo Hörður kónginn eftir í uppnámi og krafðist Pétur umsvifalaust sigurs.  Skákdómari stóð þá yfir skákinni og gat ekki annað en samþykkt kröfuna.

Hradskakmot_TR_2015-34

Freyja Íslandsmeistari stúlkna 9-10 ára tefldi vel og halaði inn fimm vinningum

Freyju urðu á þau mistök í byrjun að víxla kóng og drottningu í upphafi skákar sem hvorki hún né Björgvin Kristbergsson tóku eftir.  Eftir nokkuð marga leiki bombaði Björgvin svo út Dh5(+) og hélt að hann væri að skáka þeirri litlu.  Þau stoppuðu klukkuna þegar þau áttuðu sig á að mistökunum.  Dómari lét skákina halda áfram þótt skákmaðurinn sem stillti upp rangt hagnist hér á mistökum sínum.  De8xh5! var náttúrulega svarið.

Hradskakmot_TR_2015-48

Frá vinstri: Dagur Ragnarsson sem endaði í þriðja sæti, Hilmir Freyr annað sæti og Hraðskákmeistari TR 2015 og Oliver Aron sigurvegari mótsins

í mótslok fór svo fram verðlaunaafhending fyrir bæði Haustmót TR og Hraðskákmót TR.

 

Hradskakmot_TR_2015-50

Arnar Milutin Heiðarsson t.v. sem sigraði í opna flokk Haustmótsins ásamt Alexander Oliver Mai sem var í öðru sæti

Hradskakmot_TR_2015-52

C flokkur Haustmótsins. Veronika Steinunn Magnúsdóttir (3), Gauti Páll Jónsson sem sigraði með fullu húsi og Aron Þór Mai (2)

Hradskakmot_TR_2015-56

B flokkur Haustmótsins. Sigurvegarinn Guðlaug Þorsteinsdóttir og Vignir Vatnar Stefánsson sem hafnaði í öðru sæti

Hradskakmot_TR_2015-58

T.v. Oliver Aron Jóhannesson sem hafnaði í þriðja sæti á A flokki Haustmótsins og Einar Hjalt Jensson sem sigraði flokkinn

Taflfélag Reykjavíkur óskar verðlaunahöfum Haustmótsins til hamingju.  Oliver Aron með sigurinn á hraðskákmótinu og hinum unga Hilmi Frey með titilinn Hraðskákmeistari Taflfélags Reykjavíkur 2015.  Einnig viljum við þakka kærlega öllum þeim sem tóku þátt í mótunum og vonumst til að sjá ykkur öll að ári!