Ögmundur sigraði í Æskunni og Ellinni



Verðlaunahafarnir.

Verðlaunahafarnir.

Ögmundur Kristinsson (2027) kom fyrstur í mark í Æskunni og ellinni, mótinu sem brúar kynslóðirnar, sem fram fór í Skákhöll TR í gær. Hlaut Ögmundur 7,5 vinning úr skákunum níu en jafnir í 2.-4. sæti með 7 vinninga voru Júlíus Friðjónsson (2065), Þór Valtýsson (1921) og Stefán Þormar Guðmundsson (1734) þar sem Júlíus hlaut annað sætið og Þór það þriðja eftir stigaútreikning. Fjölmörg aukaverðlaun voru veitt og eru þeim gerð skil hér að neðan.

Æskan og ellin 2018.

Æskan og ellin 2018.

Keppendur í mótinu voru tæplega 60 talsins og eins og alltaf var stemningin létt og skemmtileg þegar kynslóðirnar mættust en hvorki meira né minna en 86 árum munaði á elsta keppandum, Sverri Gunnarssyni (f. 1927), og þeim yngstu, Birki Hallmundarsyni og Lemuel Goitom Haile sem báðir eru fæddir 2013. Lítið var gefið eftir á skákborðunum, hart var barist og oftar en ekki klóruðu þeir reynslumeiri sér í hausnum yfir hæfileikum þeirra yngri á borðunum köflóttu. Mótahald gekk vel og á milli umferða gæddu viðstaddir sér á ljúffengum veigum úr Birnu-kaffi þar sem Birna Halldórsdóttir stóð vaktina en Birna er fyrir löngu orðin órjúfanlegur partur af starfi Taflfélags Reykjavíkur.

Elsti og yngsti keppandinn ásamt Einari S. Einarssyni.

Elsti og yngsti keppandinn ásamt Einari S. Einarssyni.

Á Chess-Results má finna heildarúrslit og hér á eftir fylgir útlistun á aukaverðlaunum. Mótshaldarar þakka keppendum fyrir þátttökuna.

Efst stúlkna: Batel Goitom Haile 5v

80 ára og eldri: 1. Sigurður Kristjánsson 6,5v 2. Páll G. Jónsson 5v 3. Magnús V. Pétursson 4,5v

70-79 ára: 1. Þór Valtýsson 7v 2. Stefán Þormar Guðmundsson 7v 3. Gunnar Örn Haraldsson 6v

60-69 ára: 1. Ögmundur Kristinsson 7,5v 2. Júlíus Friðjónsson 7v 3. Sveinbjörn Jónsson 5,5v

13-15 ára: 1. Óskar Víkingur Davíðsson 6v 2. Kristján Dagur Jónsson 5,5v 3. Árni Ólafsson 5v

10-12 ára: 1. Benedikt Þórisson 6v 2. Benedikt Briem 6v 3. Gunnar Erik Guðmundsson 5,5v

9 ára og yngri: 1. Bjartur Þórisson 5v 2. Einar Dagur Brynjarsson 4v 3. Markús Orri Jóhannsson 4v