Öðlingamótið: Sigurbjörn og Þorvarður efstir



Fide-meistarinn Sigurbjörn Björnsson (2278) er efstur ásamt Þorvarði F. Ólafssyni (2176) með 4,5 vinning þegar fimm umferðum er lokið á Skákmóti öðlinga. Stórmeistari kvenna, Lenka Ptacnikova (2200), kemur næst með 4 vinninga líkt og Haraldur Baldursson (1949). Í fimmtu umferð, sem fór fram síðastliðið miðvikudagskvöld, lagði Sigurbjörn Jóhann H. Ragnarsson (1985) nokkuð örugglega í vel útfærðri sóknarskák. Þorvarður hafði betur gegn Halldóri Pálssyni (2056) eftir að hafa þjarmað duglega að honum í vanalegu tímahraki þess síðarnefnda. Þá sigraði Haraldur Jóhann H. Sigurðsson (1988) í mikilli baráttuskák.

Jafntefli varð niðurstaðan hjá feðgunum.

Jafntefli varð niðurstaðan hjá feðgunum.

Ekki var mikið um óvænt úrslit en þó litu jafntefli dagsins ljós í viðureign Sverris A. Björnssonar (2135) og Kristins J. Sigurþórssonar (1744), sem og Halldórs Garðarssonar (1793) og Björgvins Víglundssonar (2147). Þá vakti athygli viðureign feðganna Þórs Valtýssonar (1922) og Páls Þórssonar (1693) þar sem fljótlega var samið jafntefli en hvorugur kunni við að fara illa með hinn.

Sigurbjörn stýrði svörtu mönnunum til sóknar.

Sigurbjörn stýrði svörtu mönnunum til sóknar.

Sjötta og næstsíðasta umferð fer fram næstkomandi miðvikudagskvöld en þá verður hörkuviðureign á fyrsta borði þar sem Sigurbjörn hefur hvítt gegn Lenku. Á öðru borði mætast Stefán Arnalds (1999) og Þorvarður en á því þriðja berjast Kristján Guðmundsson (2289) og Ögmundur Kristinsson (2010). Orrusturnar hefjast á slaginu 19:30 og að sjálfsögðu verður heitt á könnunni fyrir keppendur og áhorfendur!

Úrslit ásamt skákum á Chess-Results.