Öðlingamótið: Hörð barátta framundan – þrír efstir og jafnir



 

Fide-meistarinn Sigurbjörn Björnsson (2278), Þorvarður F. Ólafsson (2176) og stórmeistari kvenna Lenka Ptacnikova (2200) eru efst og jöfn með 3,5 vinning þegar fjórum umferðum af sjö er lokið í Skákmóti öðlinga. Í fjórðu umferð lagði Sigurbjörn Ögmund Kristinsson (2010) nokkuð örugglega og þá hafði Þorvarður betur gegn Kristni J. Sigurþórssyni (1744) eftir laglega fléttu. Lenka tók yfirsetu og mun gera slíkt hið sama í næstu umferð þar sem hún situr nú að tafli á Evrópumóti kvenna sem fer fram í Slóvakíu. Þrír keppendur koma næstir með 3 vinninga og spennan því mikil fyrir seinni hlutann.

20180328_195015

Á þriðja borði vann Haraldur Baldursson (1949) góðan sigur á Kristjáni Guðmundssyni (2289) þar sem sá síðarnefndi missti illa niður mjög vænlega stöðu í endatafli og þá hafði hinn margreyndi Björgvin Kristbergsson (1063) betur gegn Lárusi H. Bjarnasyni (1563) þrátt fyrir mikinn stigamun.

Fimmta umferð fer fram næstkomandi miðvikudagskvöld og hefst venju samkvæmt á slaginu 19.30. Öll úrslit ásamt skákum mótsins má finna á Chess-Results.