Níu með fullt hús á U-2000 mótinu



Tinna Kristín Finnbogadóttir og Joshua Davíðsson eigast hér við.

Tinna Kristín Finnbogadóttir og Joshua Davíðsson eigast hér við.

Hart var barist á öllum borðum í annarri umferð U-2000 mótsins sem fór fram í gærkveld. Á efstu þremum mörðu stigahærri mennirnir sigur eftir að hafa haft vafasamar stöður megnið af tímanum. Emil Sigurðarson og Haraldur Baldursson unnu hróksendatöfl gegn Agnari Darra Lárussyni og Jóhanni Arnari Finnssyni. Í báðum tilvikum gegndi betri kóngsstaða lykilhlutverki. Loftur Baldvinsson og Jón Eggert Hallsson tefldu skák þar sem ekki mátti á milli sjá hvor var með verri kóngsstöðu – frábært fyrir áhorfendur!

Jóhanna Björg Jóhannsdóttir, Lisseth Acevedo Méndez, Tinna Kristín Finnbogadóttir, Hrund Hauksdóttir og  Sigríður Björg Helgadóttir unnu allar og við munum sjá tvær þeirra á efstu borðum í næstu umferð! Sigurlaug Friðþjófsdóttir tapaði stöðubaráttunni gegn Lisseth. Hrund afgreiddi sinn andstæðing snaggaralega eins og síðast.

Hörð barátta við borðin köflóttu.

Hörð barátta við borðin köflóttu.

Stigalausu mennirnir Þorsteinn Magnússon, Kristján Þorsteinsson, Magnús Friðriksson og Oddur Þorri Viðarsson stóðu sig með prýði – greinilegt að þeir hafa teflt mikið áður.

Ungu stelpurnar og strákarnir voru ekki í sama stuði og síðast – með undantekningum þó: – Benedikt Þórisson tíndi peðin af Kristni Jens Sigurþórssyni án þess að sá síðarnefndi næði gagnsókn. Rayan Sharifa, Soffía Berndsen og Iðunn Helgadóttir tefldu vel á lægstu borðunum.

Birnukaffi var á sínum stað – góðgæti og heitt á könnunni. Við óskum Birnu til hamingju með afmælið í dag! Fá skákfélög eru svo heppin að hafa þvílíka konu í sínum félagsskap.

Þriðja umferð fer fram næstkomandi miðvikudag og hefst venju samkvæmt kl. 19.30. Öll úrslit á Chess-Results.