Mikið um dýrðir á Jólaæfingu TR



Í gær var haldin hin árlega jólaskákæfing sem er um leið uppskeruhátíð haustannarinnar hjá Taflfélagi Reykjavíkur. Börnin mynduðu lið með fjölskyldumeðlim eða vin og tefldu sex umferðir í tveggja manna liðum. Reyndir sem óreyndir skákmenn spreyttu sig og vék keppnisharkan fyrir jólaandanum. Á milli umferða voru veitt verðlaun fyrir ástundun á haustönninni og því áttu börnin sviðsljósið.

20171209_132349

Mörg skemmtileg liðanöfn sáust og hafa einstaka lið teflt árum saman undir sama nafni. Eitt slíkt lið er Stúfur og Leppunarlúðinn en þar tefla feðgarnir Björn Jónsson, fyrrum formaður Taflfélags Reykjavíkur, og hinn bráðefnilegi Alexander Björnsson. Þeir tefla ávallt með jólasveinahúfur og að þessu sinni freistuðu þeir þess að fá nokkra auka vinninga með því að rétta fram gotterísskál í upphafi viðureigna og bjóða andstæðingum sínum að gæða sér á dýrindis súkkulaði. Þó gotteríið hafi vafalítið aukið gjafmildi andstæðinganna við skákborðið þá nægði það þeim feðgum þó ekki til þess að ná efstu þremur sætunum, þó þeir væru í toppbaráttunni.

Í þremur efstu sætunum voru skemmtileg lið sem voru skipuð þekktum skákmönnum. Liverpool FC (Ásthildur Helgadóttir og Helgi Áss Grétarsson) lentu í 3.sæti, Stúfur og Grýla (Adam Omarsson og Lenka Ptacnikova) urðu í 2.sæti, og sigurvegararnir voru hið vaska lið Þorbjörn (Þorsteinn Magnússon og Björn Hólm Birkisson).

20171209_153838

 

Þau börn sem duglegust voru að stunda skákæfingar þetta haustið fengu afhenta verðlaunapeninga fyrir iðjusemina. Mörg hver sýndu mikinn metnað á haustönninni og virðast hafa innbyggða samviskusemi á heimsmælikvarða. Engin þó meira en Iðunn Helgadóttir og Benedikt Þórisson sem fengu verðlaun fyrir ástundun í tveimur flokkum!

Verðlaunahafar fyrir ástundun á haustönn 2017 voru sem hér segir:

Opin æfing:

  • Gull: Benedikt Þórisson.
  • Silfur: Rayan Sharifa.
  • Brons: Jósef Omarsson og Adam Omarsson.

20171209_140122

Byrjendaflokkur:

  • Gull: Ísak Smári Sveinsson og Elín Lára Jónsdóttir.
  • Silfur: Jón Björn Margrétarson, Hlynur Orri Ingólfsson, Díana Jónína Sonja Svavarsdóttir og Emil Arthur Júlíusson.
  • Brons: Svavar Óli Stefánsson.

20171209_144451

Stúlknaflokkur:

  • Gull: Iðunn Helgadóttir.
  • Silfur: Þóra Magnúsdóttir.
  • Brons: Hildur Birna Hermannsdóttir.

20171209_142317

Framhaldsflokkur:

  • Gull: Iðunn Helgadóttir.
  • Silfur: Benedikt Þórisson og Victor Thang Tri Nguyen.
  • Brons: Daníel Davíðsson.

20171209_150622

Haustönnin hefur verið lífleg hjá Taflfélagi Reykjavíkur og framfarir sumra barnanna hafa verið miklar. Því oftar sem börnin mæta á æfingar og tefla í skákmótum því hraðar koma framfarirnar. Vorönnin hefst í byrjun janúar og verður hún auglýst nánar þegar nær dregur.

Takk fyrir haustönnina kæru skákbörn og foreldrar!