Loksins kom stórmeistarakakan!



Margir hafa glaðst yfir stórmeistaratitli Guðmundar Kjartanssonar, ekki síst við TR-ingar sem fögnum því að bæta þessum merka áfanga á árangurslista félagsins á annars heldur dauflegu skákári.

Þó hafa fáir beðið eins spenntir eftir stórmeistaratitli Guðmunar og lærisveinar og -sveinka hans á afreksæfingum Taflfélagsins.  Gummi hafði nefnilega verið svo djarfur fyrir allnokkru að lofa að baka fyrir þau köku þegar stórmeistaratitillinn væri í höfn.   Skömmu síðar glötuðust nokkur stig sem þurfti að vinna upp, svo reið yfir næsta bylgja heimsfaraldurs með stopulum kappskákmótum og takmörkunum á skákveitingum og afrekskrakkarnir voru farnir að efast um að kakan kæmi nokkurn tíma. Jafnvel var farið að efast um bökunarfærni skákmeistarans!

En með hækkandi sól var titillinn í höfn og eftir ókökuvænar netæfingar og fjarveru Guðmundar á Skákþingi Íslands rann hinn langþráði kökudagur loksins upp!  Stórmeistarinn birtist með kökuna og hún var snædd samfara skýringum á skákum Guðmundar á því sama Skákþingi.  Bar öllum saman um að Guðmundur væri jafnvel stórmeistari í kökubakstri, því kakan var gómsæt og laktósafrí að auki til að tryggja að allir  gætu notið.  Til hamingju Gummi með titilinn og baksturinn!!

kaka2kaka1