Lenka Ptácníková fór hamförum á Jólahraðskákmóti TR



Ef það er hægt að ábyrgjast eitthvað skákmót milli jóla og nýárs þá er alltaf hægt að stóla á að Jólaskákmót T.R verði á sínum stað. Mótið var fjölmennt eins og fyrri ár og voru mættir um 45 keppendur að þessu sinni. Teflt var eftir hefðbundu fyrirkomulagi eins og í fyrra með 9 umferðum og 4+2 sekúndum á leik sem hefur reynst mjög vel.

20171228_210651

Eftir brösuglega byrjun mótshaldara við að hefja mótið gekk það síðan hratt og örugglega af stað og nokkuð áfallalaust. Í fyrri hluta mótsins var lítið um óvænt úrslit sem reyndust nokkurn veginn eftir bókinni með fáeinum undantekningum. Sigurvegarar síðustu ára létu sig ekki vanta að þessu sinni og má þar nefna Pál Agnar Þórarinsson, Vigni Vatnar Stefánsson og Jóhann Ingvason sem fóru eins og áður fremstir í flokki. Sigurvegari frá mótinu í fyrra Páll Agnar hélt fyrsta borðinu fyrir sig í fyrri hluta mótsins. Það breytist hins vegar í 5 umferð þar sem Jóhann Ingvason hafði betur gegn Páli í nokkuð fjörugri skák.

Eftir þetta tóku Lenka Ptácníková og Vignir Vatnar forystu. Eins og oft áður réðust úrslitin hins vegar ekki fyrr en í síðustu þremur umferðunum. Úrslitaskákin milli þeirra tveggja var síðan í 7 umferð þegar Lenka hafði betur gegn Vigni. Lenka gaf engin grið og leyfði aðeins eitt jafntefli gegn Páli í fjórðu umferð. Fyrir þetta tekur Lenka inn 58 stig sem verður að teljast nokkuð gott. Páll Agnar náði síðan að tryggja sér annað sætið með sigri á Vigni í áttundu umferð.

Lokastaða efstu keppenda:

1. Lenka 8.5/9v.
2. Páll 7.5v.
3-4. Jóhann Ingvason, Vignir Vatnar 6.5v.

20171228_220707

Taflfélagi Reykjavíkur þakkar öllum fyrir þátttökuna og óskar skákiðkendum nær og fjær gleðilegs nýs skákárs. Hlökkum til að hitta ykkur á nýju ári!

Úrslit og lokastöðu má finna hér.