Leikar æsast í U-2000 mótinu – Þrír á toppnum



Haraldur og Alexander reyktu saman friðarpípu.

Haraldur og Alexander reyktu saman friðarpípu.

Þegar ein umferð lifir af U-2000 móti TR eru Alexander Oliver Mai (1875), Páll Andrason (1805) og Jón Eggert Hallsson (1648) efstir og jafnir með 5 vinninga. Í sjöttu og næstsíðustu umferð gerði Alexander jafntefli við Harald Baldursson (1935) í stuttri skák, Jón Eggert sigraði Stephan Briem (1895) nokkuð óvænt eftir mikla baráttu og þá lagði Páll Kristján Geirsson (1556) eftir að hafa verið með hartnær tapað tafl um miðbik skákar. Í næstu sætum með 4,5 vinning eru Haraldur, Óskar Víkingur Davíðsson (1777) og Jóhann Arnar Finnsson (1732).

Páll stóð af sér pressu Kristjáns.

Páll stóð af sér pressu Kristjáns.

Það er ljóst að spennan verður mikil í lokaumferðinni sem fer fram næstkomandi miðvikudagskvöld en þá mætast á efsta borði þeir Alexander og Jón Eggert. Á öðru borði kljást Páll og Óskar Víkingur og á því þriðja berjast Jóhann Arnar og Haraldur. Flautað verður til leiks stundvíslega kl. 19:30. Áhorfendur velkomnir!