Laugardagsæfingarnar í fullum gangi



Laugardagsæfingar Taflfélags Reykjavíkur eru ætlaðar börnum upp að 12-13 ára aldri og fara fram alla laugardaga yfir vetrartímann klukkan 14.  Teflt er í húsakynnum félagsins að Faxafeni 12 og er aðgangur ókeypis fyrir alla, hvort sem þeir eru í félaginu eða ekki.  Yngstu börnin eru 5-6 ára og ef manngangurinn er ekki alveg kominn á hreint eru þau samt velkomin og geta þá fylgst með til að byrja með eða spreytt sig gegn hinum reyndari og fengið þá tilsögn um leið.

23 æfingar hafa farið fram þennan veturinn og verður áfram haldið þar til nær dregur sumri.

Umsjónarmaður æfinganna er Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir og um skákþjálfun sjá þeir Torfi Leósson og Daði Ómarsson, sem eru í hóp sterkustu skákmanna þjóðarinnar.

Ítarlegir pistlar eru skrifaðir eftir hverja æfingu þar sem má finna upplýsingar um hvað var gert sem og stigagjöf barnanna fyrir mætingu og ástundun.  Pistlana ásamt fjölda mynda má finna á heimasíðu laugardagsæfinganna.