Laugalækjarskóli í 2. sætiLaugalækjarskóli lenti í 2. sæti í undir 16 ára flokki á Evrópumóti skólasveita, en mótinu lauk í dag.  Í 6. og síðustu umferð mætti sveitin Litháunum og þurfti 4-0 sigur til að lenda í 1. sæti.  Það tókst nú ekki.  Litháarnir náðu snemma sigri og að lokum fór viðureignin 1,5-2,5 þeim í hag.

 

Ekki liggja fyrir endanleg úrslit úr viðureign Hvít-Rússa og Búlgara, en þegar ein skák var eftir var staðan 2-1 fyrir Hvíta-Rússland og hvorug sveitin gat náð Laugalækjarskóla að vinningum.

 

Litháen – Laugalækjarskóli 2,5-1,5

 

1. Domantas Klimciauskas – Daði Ómarsson 1-0

2. Julius Garnelis – Vilhjálmur Pálmason 0,5-0,5

3. Brigite Laurusaite – Matthías Pétursson 0,5-0,5

4. Vytautas Simanaitis – Einar Sigurðsson 0,5-0,5

 

Daði tefldi eitraða peðs afbrigðið í Najdorf  og lagði allt í sölurnar.  Það var eiginlega gremjulegt að þetta afbrigði skyldi koma upp, því ég hafði giskað á að Litháinn tefldi ensku árásina.  Enda fór svo að Daði tefldi teóríuna ekki rétt, en það er stórhættulegt í eitraða peðs afbrigðinu.  Þetta var í eina skipti sem við fengum verra út úr byrjunininni í þessu móti.

 

Ég fékk ekki að fylgjast með skákunum í dag, því það voru sérstakar reglur um síðustu umferð sem hváðu um að enginn mætti vera ofan í skákunum, ekki einu sinni liðsstjórarnir.

 

En mér skilst að taflið hafi jafnast snemma hjá Villa.  Eftir að ljóst var að við áttum ekki lengur möguleika á sigri samdi hann, enda keppnisskapið fokið út í veður og vind, held ég.

 

Matti hélt áfram út í endatafl á móti Laurusaite.  Síðan, þegar hann gat tekið áhættu og teflt til sigurs, var eins og það slokknaði á honum og hann fann að hann gat ekkert reiknað.  Hann samdi því jafntefli frekar en að hætta á tap.  Matti er annars búinn að vera frekar þreyttur síðustu tvo daga, það er bara gott gengi í mótinu og möguleikar sveitarinnar á sigri sem hafa haldið honum gangandi.

 

Einar fékk síðan betra á móti Simanaitis – fékk stúderingarnar sínar upp frá því um morguninn, en fannst hann hafa gert eitthvað rangt og upp kom óljós staða.  Við tókum jafnteflisboði Litháans til að tryggja okkur 2. sætið.

 

Litháen náði 15,5 vinningum og voru örugg í efsta sæti.  Þau voru vel að sigrinum komin og sigurinn var öruggari heldur en í fyrra, en þá urðu þau aðeins hálfum vinningi fyrir ofan Laugalækjarskóla.

 

Laugalækjarskóli fékk 11,5 vinning.

 

Árangur einstakra liðsmanna:

 

1. Daði Ómarsson 0,5 af 5

2. Vilhjálmur Pálmason 1 af 5

3. Matthías Pétursson 5,5 af 6

4. Einar Sigurðsson 3 af 4

vm. Aron Ellert Þorsteinsson 1,5 af 4

 

Daði og Villi sem oft hafa reynst okkur drjúgir í liðakeppnum fundu aldrei fjölina sína að þessu sinni.  Aron var líka lengi í gang.

 

Eiginlega hefði átt að tefla eina umferð til viðbótar, við hefðum kannski átt séns þá.

 

En það hefur verið einkenni á skáksveit Laugalækjarskóla að hún er lengi í gang, byrjar oft illa.  Ég, sem liðsstjóri, verð að játa að í öll þessi 5 ár sem ég hef séð um sveitina hef ég ekki getað fundið svar við þessu.  Það má því skrifa þetta á mig.  Enda var þetta einkenni á sjálfum mér sem skákmanni að ég byrjaður yfirleitt illa.

 

Jæja, við verðum ekki Evrópumeistarar, en við tefldum margar góðar skákir, þó þær ynnust ekki allar.  Síðan þegar öll sund virtust lokuð, tók sveitin sig á og átti veika von um sigur fyrir lokaumferðina.  Ég vil því meina að 2. sætið hafi verið fyllilega verðskuldað, þó við áttum ekki skilið að vinna að þessu sinni.  Til þess hefðum við þurft að vera heppnari (eða aðeins óheppnari).

 

Torfi Leósson