Landsliðsþjálfari Úkraínu setur upp þjálfunarbúðir hjá Taflfélagi Reykjavíkur1720d0510fe4540fb6331321e9d4746e_400x400Stórmeistarinn Oleksandr Sulypa, landsliðsþjálfari Úkraínu, er staddur hér á landi þessa vikuna í boði Taflfélags Reykjavíkur. Oleksandr mun slá upp þjálfunarbúðum næstu daga í skáksal félagsins þar sem bæði verða hóptímar og einkatímar á boðstólnum fyrir sterkustu og virkustu skákmenn félagsins. Auk þess kemur hann til með að tefla með TR í Íslandsmóti skákfélaga sem hefst næstkomandi fimmtudagskvöld.

Oleksandr hefur unnið með nokkrum af sterkustu skákmönnum heims og má þar nefna fyrrum heimsmeistarann Ruslan Ponomariov og goðsögnina Vassily Ivanchuk en Oleksandr var hægri hönd Ivanchuks í nokkur ár í kringum aldamótin. Landslið Úkraínu hefur nokkrum sinnum staðið á verðlaunapalli Ólympíumóta með Oleksandr við stjórnvölinn.

Á miðvikudagskvöld klukkan 19:00-20:00 verður Oleksandr með skákskýringar fyrir alla TR-inga í skáksal félagsins að Faxafeni 12. TR-ingar eru hvattir til að fjölmenna. Eftir fyrirlesturinn gefst áhugasömum gestum kostur á að grípa í tafl.