Jón Viktor sigurvegari TölvuteksmótsinsAlþjóðlegi meistarinn, Jón Viktor Gunnarsson, tryggði sér sigur á Haustmótinu þegar hann vann Jóhann H. Ragnarsson í áttundu og næstsíðustu umferðnni sem fram fór á sunnudag.  Þegar einni umferð er ólokið hefur Jón 7 vinninga, 1,5 vinningi meira en stórmeistari kvenna, Lenka Ptacnikova, sem sigraði Sverri Örn Björnsson.  Einar Hjalti Jensson er þriðji með 5 vinninga eftir sigur á Gylfa Þór Þórhallssyni.

 

Níunda og síðasta umferð fer fram á miðvikudagskvöld og hefst kl. 19.30.  Þá mætast m.a. Jón Viktor og alþjóðlegi meistarinn, Sævar Bjarnason, Lenka og Mikael Jóhann Karlsson, og Einar Hjalti og Kjartan Maack.

 

Staðan í B-flokki er æsispennandi fyrir lokaumferðina.  Fjölnismennirnir ungu, Jón Trausti Harðarson, Dagur Ragnarsson og Oliver Aron Jóhannesson, raða sér í þrjú efstu sætin.  Jón og Dagur eru jafnir í 1.-2. sæti með 5,5, vinning en Oliver er þriðji með 5 vinninga.  Í áttundu umferð vann Jón Sigurlaugu R. Friðþjófsdóttur, Oliver vann Sveinbjörn Jónsson en Dagur sat hjá.

 

Svo einkennilega vill til að Dagur situr aftur hjá í níundu og síðustu umferð því andstæðingur hans, Nökkvi Sverrisson, þurfti að hætta þátttöku í mótinu.  Það er því ljóst að Dagur mun ljúka keppni með 5,5 vinning þar sem „vinningar“ í hjásetu þurrkast út.  Oliver mætir Sigurlaugu og Jón Trausti mætir Grími Birni Kristinssyni.  Skrýtin staða er uppi því í raun er Dagur öruggur með a.m.k. skipt efsta sæti þar sem eftir á að þurrka út vinning Jóns Trausta gegn Elsu Maríu í fyrstu umferð og sama gildir um vinning Olivers gegn Nökkva í sjöundu umferð.

 

Í opna flokknum er enn kominn nýr forystusauður og að þessu sinni er það Dawid Kolka sem hefur 6 vinninga eftir sigur á Hilmi Frey Heimissyni.  Hilmir er í 2.-4. sæti ásamt Bjarnsteini Þórssyni og Vigni Vatnari Stefánssyni en báðir hafa verið á góðu flugi eftir rólega byrjun.

 

Í síðustu umferðinni mætir Dawid Vigni Vatnari, Hilmir Freyr mætir Felix Steinþórssyni og Bjarnsteinn mætir Heimi Páli Ragnarssyni.

  • Bein útsending
  • Úrslit, staða og pörun
  • Myndir
  • Upplýsingar
  • Skákmeistarar T.R.
  • Skákir: 1. umf  2. umf  3. umf  4. umf  5. umf