Jón Viktor og Einar Hjalti efstir í Skákþingi ReykjavíkurSjöunda umferð Skákþings Reykjavíkur fór fram síðastliðinn sunnudag og sigruðu efstu menn báðir sína andstæðinga. Alþjóðlegi meistarinn Jón Viktor Gunnarsson vann Dag Ragnarsson og Fide meistarinn Einar Hjalti Jensson lagði Þorvarð Fannar Ólafsson. Jón Viktor og Einar Hjalti hafa nú vinningsforskot á næstu menn og leiða mótið með 6,5 vinning.Nokkuð var um eftirtektarverð úrslit og má þar nefna að Örn Leó Jóhannsson heldur áfram góðu gengi og gerði nú jafntefli við Júlíus L. Friðjónsson. Óvæntustu úrslit umferðarinnar hljóta þó að vera sigur hins unga og efnilega Jóns Trausta Harðarsonar á Fide meistaranum Sigurbirni Björnssyni en Jón Trausti hefur verið á mikilli siglingu að undanförnu. Örn Leó er í 3.-4. sæti ásamt Fide meistaranum Davíð Kjartanssyni með 5,5 vinning en Davíð sigraði Loft Baldvinsson.Ólafur Gísli Jónsson hefur einnig átt gott mót og sigraði Stefán Bergsson en Ólafur er í hópi níu keppenda sem hafa 5 vinninga, en þeirra á meðal er Jón Trausti. Af öðrum úrslitum má nefna jafntefli Jóns Úlfljótssonar og Þórs Valtýssonar, jafntefli Sigurlaugar R. Friðþjófsdóttur og Harðar Jónassonar, sem og sigur hins stigalausa Ólafs Hlyns Guðmarssonar á Veroniku Steinunni Magnúsdóttur.

Áttunda og næstsíðasta umferð fer fram á miðvikudagskvöld og hefst kl. 19.30. Þá mætast m.a. Davíð og Einar Hjalti, Jón Viktor og Haraldur Baldursson, sem og stórmeistari kvenna Lenka Ptacnikova og Örn Leó.

  • Úrslit, staða og pörun
  • Skákir: 1 2 3 4 5 6 7 8 9
  • Myndir
  • Mótstöflur SÞR
  • Skákmeistarar Reykjavíkur