Hrund, Þór og Páll sigurvegarar U-2000 mótsins



Sigurvegarar U-2000 mótsins.

Sigurvegarar U-2000 mótsins.

U-2000 mót Taflfélags Reykjavíkur kláraðist í gærkvöldi – mjög skemmtilegt mót sem er komið til að vera. Lokaumferðin var ótrúlega jöfn þar sem fimm keppendur gátu unnið mótið. Tinna Kristín Finnbogadóttir lék því miður af sér manni í upphafi skákarinnar gegn Páli Snædal Andrasyni á fyrsta borði og því varð sú viðureign aldrei spennandi. Þór Valtýsson náði óstöðvandi kóngssókn gegn Sigurjóni Haraldssyni á öðru borði en Hrund Hauksdóttir fékk hagstætt peðsendatafl gegn Sigurjóni Þór Friðþjófssyni á þriðja borði og knúði fram vinning. Þar með var hún efst með 6 vinninga ásamt Þór og Páli og því þurfti oddastig (tiebreaks) til að skera úr um lokaröð þeirra þriggja.

Svo fór að Hrund hlaut fyrsta sætið, Þór annað sætið og Páll það þriðja en jafnara gat þetta varla verið og þess má einnig geta að þau fóru öll taplaus í gegnum mótið. Næst með 5 vinninga voru Tinna Kristín, Lisseth Mendez Acevedo, Jóhanna Björg Jóhannsdóttir, Agnar Darri Lárusson, Sigurjón Haraldsson, Loftur Baldvinsson og Haraldur Haraldsson.

Hrund Hauksdóttir hlaut 1. sætið á U-2000 mótinu.

1. sæti: Hrund Hauksdóttir

2. Sæti Þór Valtýsson.

2. sæti: Þór Valtýsson

3. sæti: Páll Snædal Andrason.

3. sæti: Páll Snædal Andrason

Af öðrum viðureignum í lokaumferðinni má nefna að skákstjórinn hafði gaman af baráttunni á borðum 17, 18 og 19 en þar var teflt í besta kaffihúsastíl þar sem skákiðkendur uppi um 1850 í París og Vínarborg hefðu skemmt sér vel. Hinn ungi Óttar Örn Bergmann Sigfússon og hinn reyndi Lárus Bjarnason tefldu skák sem var í fallegu ójafnvægi lengst af en Óttar hafði að lokum sigur. Á næsta borði áttust við aðrir fulltrúar ungdómsins, þeir Benedikt Þórisson og Jósef Omarsson (8 ára), hvar á gekk með slíkum fórnum og afleikjum að það var kraftaverki líkast að skákin skyldi enda með jafntefli. Þá voru nafnarnir Kristján Þorsteinsson og Kristján Dagur Jónsson undir sömu nítjándu aldar áhrifum þar sem lítið var hirt um menn og peð en þar náði sá fyrrnefndi að lokum óstöðvandi sókn á kóng svarts sem var í hirðuleysi á miðborðinu. Margir hækka verulega á stigum, þeirra mest Björn Grétar Stefánsson sem halaði inn 71 stig eftir seiga varnarbaráttu í nokkrum skákum.

Birna Halldórsdóttir er klettur í starfi Taflfélags Reykjavíkur.

Birna Halldórsdóttir er traust sem klettur í starfi Taflfélags Reykjavíkur.

Pétur Jóhannesson er hér þungt hugsi en hann lætur sig sjaldnast vanta á skákmót.

Pétur Jóhannesson er hér þungt hugsi en hann lætur sig sjaldnast vanta á skákmót.

Að lokum þökkum við fyrir frábært mót, skemmtilegar skákir, svo ekki sé minnst á góðar stundir í eldhúsinu hjá Birnu. Lokastöðu ásamt skákum má finna á Chess-Results.