Hnífjöfnu Bikarmóti stúlkna lauk í dag



Núna um helgina, 2.-4. desember, var í annað sinn haldið Bikarmót stúlkna samhliða Bikarsyrpu TR. Fyrirkomulagið var með sama sniði og í Bikarsyrpunni undanfarin tvö ár, þ.e. 5 umferðir tefldar með 30 mín. umhugsunartíma og 30 sek. viðbótartíma fyrir hvern leik.

Skákmótið var sett á laggirnar til þess að hvetja stúlkur til aukinnar þátttöku í skákmótum. Stúlkurnar gátu því valið hvort þær vildu taka þátt í opnu Bikarsyrpunni, sem í vetur hefur 7 umferðir, eða taka þátt í stúlknamótinu með 5 umferðum. Þetta fyrirkomulag hefur komið vel út og hefur vakið athygli áhorfenda, því til dæmis höfum við mótshaldarar verið spurðir hvort þetta sé sérstakt átak fyrir stelpur. Það má svara þeirri spurningu játandi, því það að auka fjölda stúlkna í skák, sem og auka þátttöku stúlkna í skákmótum, er eitt af þeim atriðum, sem við í stjórn TR, leggjum áherslu á.
20161204_130313

Í fyrsta mótinu sem fór fram í byrjun nóvember tóku 5 stúlkur þátt og til viðbótar tóku þrjár TR-stúlkur þátt í Bikarsyrpunni sem fram fór á sama tíma. Í skákmótinu nú um helgina tóku sex stelpur þátt í Bikarmóti stúlkna og tvær TR-stúlkur, þær Freyja Birkisdóttir og Elsa Kristín Arnaldardóttir, tóku þátt í 7. umferða Bikarsyrpunni. Eins og síðast var þetta mjög skemmtilegt og stelpurnar fengu góða reynslu í því að skrifa niður skákirnar og að tefla með mun meiri umhugsunartíma, en sem tíðkast í flestum barna-og unglingamótum.

Það sást greinilega í þessu móti að stelpurnar hafa allar öðlast meira öryggi í að skrifa niður skákirnar, án þess að vera of uppteknar af því að skrifa! En ennþá er takturinn í skákunum dálítið hraður, miðað við langa umhugsunartímann. En það þarf líka að þjálfa það að vera einn/ein með sínum skákhugsunum á meðan skákklukkan tifar! Það kemur með aukinni taflmennsku í skákmótum!

20161204_130230

Þar sem að taflmennskan var frekar hröð, þá hvarf sums staðar dálítið af liði út af skákborðinu, sem hefði annars verið gott að hafa til staðar. Sumt gerðist vegna fljótfærni, en svo á stundum fór allt í loft upp, vegna skyndilegrar fráskákar, eða skyndilegs máts, eða tvöföldunar hróka á d-línunni sem ásamt leppun gerði út um taflið. Svo var greinilegt að í sumum skákum var úrvinnslan mjög góð og leiddi því til öruggs vinnings. Eins og við segjum alltaf: Allt fer þetta í reynslubankann!

Úrslitin urðu sem hér segir:
1. Iðunn Helgadóttir, TR, 4 vinninga af 5.
2. Soffía Arndís Berndsen, TR, 4 v.
3. Anna Katarína Thoroddsen, TR, 4 v.
4. Katrín María Jónsdóttir, TR, 1,5 v.
5. Ásthildur Helgadóttir, TR, 1,5 v.
6. Bergþóra Helga Gunnarsdóttir, Víkingaklúbbnum, 0 v.
20161204_134619

Mótið var mjög jafnt og ekki var hægt með aðstoð tölvu að finna út réttmætan sigurvegara af þeim þremur sem voru efstar og jafnar með 4 vinninga. Því var beitt “heppnisaðferðinni” og dregið um sæti.

Iðunn hlaut bikar í verðlaun, Soffía Arndís fékk silfurmedalíu og Anna Katarína bronsmedalíu.

Það segir dálítið um þá góðu og skemmtilegu stemningu sem ríkir á milli stelpnanna, að þegar verið var að draga um verðlaunin, þá var ekki hægt að sjá á andlitum þeirra, hver þeirra hafði fengið hvaða verðlaun: Allar voru þær glaðar og kátar og brugðu á leik í myndatökunni!

Nánari upplýsingar um mótið má nálgast á chess-results.